*

fimmtudagur, 19. júlí 2018
Innlent 20. september 2017 15:50

Ólíklegt að verð hækki jafn hratt

Að mati greiningaraðila hjá Íbúðalánasjóði er það afar ólíklegt að verð hækki jafn hratt og það hefur gert á næstunni.

Pétur Gunnarsson
Ólafur Heiðar Helgason, hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði, sagði að óstöðugleiki komi verst niður á fólki með lágar tekjur.
Haraldur Guðjónsson

Fasteignaverð hefur hækkað gífurlega hratt að undanförnu og nú er raunverð fasteigna í hæstu hæðum. Það er til að mynda 53% hærra en í janúar 2012. Ólafur Heiðar Helgason, hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði, telur að það sé afar ólíklegt að verð hækki jafn hratt næstu misseri — og það hefur gert að undanförnu — en tekur þó fram að það sé einnig ólíklegt að verð muni lækka. Hann telur nokkuð eðlilegar útskýringar á því að fasteignaverð hafi hækkað hratt að undanförnu. Á hádegisfundi Íbúðalánasjóðs, sem haldinn var í dag, var velt upp áleitinni spurningu: Er kólnun á fasteignamarkaði?

Hagfræðingur Íbúðalánasjóðs lagði áherslu á að óstöðugleiki, verðsveiflur og framboðsskortur á húsnæðismarkaði, komi verst niður á þeim hópum í samfélaginu sem minna mega sín, meðal annars leigjendum og fólki með lágar tekjur. Mikilvægt er að þeir sem standa að umræðu og stefnumótun í húsnæðismálum sýni ábyrgð í þessari stöðu.

Vextir og verðbólguvæntingar hafa lækkað

Einnig kom Ólafur Heiðar inn á það að undanfarin ár hefur launavísitala hækkað á sama tíma og vextir á nýjum íbúðalánum hafa farið lækkandi. Þetta á einkum við um vexti á grunnlánum, en lífeyrissjóðir bjóða nú íbúðalán með 70% veðsetningarhlutfalli á um 3,6% föstum vöxtum. Viðbótarlán eru síðan á hærri vöxtum. Þegar vextir á grunnlánum og viðbótarlánum lækka hefur það þau áhrif að greiðslubyrði lækkar miðað við tiltekna fjárhæð lántöku. Ofan á þetta bætist að væntingar heimilanna um verðbólgu næsta árið eru lægri en þær hafa áður verið. Af þessum sökum er væntur fjármagnskostnaður vegna verðtryggðs láns á bestu fáanlegu föstu vöxtum nú lægri en hann hefur verið, að minnsta kosti síðan 2004. Ætla má að sum heimili líti á þetta sem tækifæri til að taka hærri lán með meiri veðsetningu sem getur ýtt undir verðþrýsting á markaði.