Breska fyrirtækið Amplify Trading Ltd. hefur hjálpað fjármálafyrirtækjum að þjálfa starfsmenn, en meðal viðskiptavina félagsins eru HSBC Holdings Plc. og Incesco Ltd. Fyrirtækið ætlar sér núna að þróa raddgreiningartól, sem á að greina hæfileikaríka spákaupmenn og miðlara. Fyrirtækið stefnir svo á að reikna út fylgnistuðla milli mismunandi orðalags og árangurs á hlutabréfamarkaði.

Fyrirtækið ætlar í fyrstu að nota tæknina í átta vikna námskeiði, þar sem þátttakendum verður skipt í tvo hópa. Símtöl hópanna verða svo greind og er markmiðið að finna út hvernig einstaklingar bregðast við mismunandi aðstæðum, hversu skilvirk símtölin eru og hversu mikið einstaklingar afkasta. Fjármálafyrirtæki munu þá fá aðgang að gögnunum og er stefnt að því að raddgreiningin geti hjálpað við ráðningar.

Orðanotkun miðlara og spákaupmanna hefur oft ratað í fjölmiðla, en kvikmyndaheimurinn hefur svo átt það til að mála menn upp sem afar kjaftfora. Eftirlitsaðilar Evrópusambandsins hafa þá einnig sektað banka fyrir talsmáta starfsmanna þeirra, en nýlega fengu þrír bankar um 486 milljón evra sekt. Umræddir bankar voru JPMorgan Chase & co., HSBC Holdings Plc. og Credit Agricole SA.