Áhugi á rafmagnsbílum hefur farið verulega dvínandi í Danmörku það sem af er ári. Sala á rafknúnum bifreiðum í Danmörku, sem inniheldur tvíorkubíla, hrapaði um 60,5 prósent á fyrsta ársfjórðungi þessa árs samanborið við 2016. Þetta kemur fram í gögnum frá bílaframleiðendasamtökum Evrópu.

Á sama tíma hafa kaup á rafbílum aukist um 80 prósent í Svíþjóð og um 30 prósent að meðaltali í Evrópusambandinu. Rafbílar voru afskaplega vinsælir í Danmörku fyrir stuttu síðan, alls seldust 5.298 slíkir bílar árið 2015, tvöfalt fleiri en á Ítalíu sem er tíu sinnum fjölmennari.

Þær sölutölur höfðu þó alveg eins mikið með góð verð að gera og umhverfisvitund. Í langan tíma fengu innflytjendur rafbíla að sleppa við 180 prósenta skatt sem Danmörk setur á venjulega bensínbíla. Haustið 2015 ákvað ríkisstjórn Lars Lokke Rasmussen að nú yrði dregið úr skattaívilnunum á rafbíla, til þess að jafna samkeppni. Tesla, sem seldi fjöldan allan af bifreiðum í Danmörku á þessum tíma, barðist hart gegn þessari lagabreytingu og mætti Elon Musk sjálfur til Kaupmannahafnar og sagði að það myndi hafa mikil neikvæð áhrif á söluna.

Að sögn Lærke Flader, framkvæmdastjóra Rafbílasamtaka Danmerkur, þá drap skattahækkunin markaðinn algjörlega.