Hagnaður RARIK samstæðunnar á árinu 2018 var 2,7 milljarðar króna sem er um 11% meiri hagnaður en á árinu 2017 þegar hagnaðurinn nam 2,5 milljörðum. Þetta kom fram á aðalfundi félagsins sem haldinn var í dag en þar var ákveðið að greiða 310 milljónir króna í arð til eiganda. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Rekstrartekjur RARIK hækkuðu um 12% frá árinu 2017 og voru um 16.6 milljarðar króna en rekstrargjöld hækkuðu um 10% og námu 13 milljörðum. Heildareignir RARIK í árslok 2018 voru 66 milljarðar króna og jukust um 7,5 milljarða á milli ára. Eigið fé samstæðunnar í árslok 2018 nam 41,1 milljarði króna og er eiginfjárhlutfallið 62,4%.

Fjárfest var fyrir 3,7 milljarða króna á árinu, sem er talsvert minna en áætlað var en um 300 milljónum króna meira en árið 2017. Áætlað er að fjárfestingar aukist enn á yfirstandandi ári og geti numið allt að 7 milljörðum króna á árinu 2019. Haldið var áfram stækkun og endurnýjun dreifikerfisins og voru lagðir alls 263 km af nýjum jarðstrengjum á árinu og er nú svo komið að um 62% af háspennudreifikerfi RARIK er í þriggja fasa jarðstrengjum sem er í samræmi við langtímaáætlun um endurnýjun loftlínukerfisins.

Með aukinni notkun jarðstrengja í stað loftlína hefur dregið mikið úr fyrirvaralausum rekstrartruflunum í dreifikerfinu því þar með hverfa að mestu áhrif veðurs á kerfið. Á síðasta ári voru fyrirvaralausar truflanir 13% færri en að meðaltali síðustu 10 ára á undan.

Stjórn RARIK var endurkjörinn á aðalfundinum í dag, en hana skipa: Birkir Jón Jónsson, formaður, Arndís Soffía Sigurðardóttir, Álfheiður Eymarsdóttir, Kristján L. Möller og Valgerður Gunnarsdóttir.