Fjögur fyrirtæki í auglýsingastarfsemi sameinuðust undir eitt þak nú um áramótin. Það eru auglýsingastofan Fíton, vefstofan Skapalón, framleiðslufyrirtækið Miðstræti og ráðgjafafyrirtækið Kansas. Nafn nýja fyrirtækisins er Janúar og verður það til húsa í Kaaberhúsinu.

„Janúar er markaðshús sem býður upp á hönnun, veflausnir, ráðgjöf og framleiðslu markaðsefnis. Janúar aðstoðar fyrirtæki og einstaklinga við að koma skilaboðum og/eða öðru markaðsefni, áleiðis með vönduðum, skilvirkum og hagkvæmum hætti í þeim miðlum sem henta hverju verkefni fyrir sig. Á þann hátt mætir Janúar vaxandi kröfu markaðsstjóra, vefstjóra og stjórnenda fyrirtækja og stofnana um heildstæða hugsun í ásýnd og markaðsstarfi,“ segir Sævar Örn Sævarsson, framkvæmdastjóri í tilkynningu.

Sjötíu starfsmenn munu starfa hjá Janúar, en það eru grafískir hönnuðir, texta- og hugmyndasmiðir, birtinga- og markaðssérfræðingar, prentsmiðir, forritarar og vefhönnuðir. Framkvæmdastjórar Janúar verða Sævar Örn Sævarsson og Pétur Pétursson. Þá verður sú breyting gerð að staða starfandi stjórnarformanns verður lögð af en Þormóður Jónsson, sem gegndi þeirri stöðu, verður stjórnarformaður Janúar. Engar aðrar breytingar verða á starfsmannahaldi, né eignarhaldi.