Gylfi Arnbjörnsson, formaður Alþýðusambands Íslands, sem situr í kjararannsóknarnefnd segir að nefndin hafi ákveðið í desember að segja upp samningi sínum við Hagstofu Íslands um greiningu launaþróunar í landinu að því er Morgunblaðið greinir frá.

„Ástæðan er einfaldlega sú að við teljum ekki hægt að una lengur við þá aðferðafræði sem lögð er til grundvallar við útreikning á núverandi launavísitölu,“ segir Gylfi, en auk hans sitja í nefndinni hagfræðingur ASÍ og hvort tveggja framkvæmdastjóri og aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær hefur SA gagnrýnt útreikningsaðferð Hagstofunnar og sagt hana leitt til allt að 38% ofmats launa í sumum starfsstéttum. Gylfi tekur undir gagnrýnina og segir gallana lengi hafa legið fyrir.

„Það vill nú svo til að ég var starfsmaður kjararannsóknarnefndar árið 1992 og við Helgi Tómasson, tölfræðingur, gerðum alvarlegar athugasemdir við þá aðferðafræði sem þá var verið að innleiða og hefur verið notast við síðan.“

Kjararannsóknarnefnd tryggir Hagstofunni þjónustusamninginn sem nú hefur verið sagt upp með ársfyrirvara, en fjármunirnir sjálfir komi atvinnuleysistryggingasjóði. Gylfi segir boltann því nú vera hjá ráðherra. „Nú höfum við sagt upp samningnum og ljóst að ef ætlunin er að endurnýja hann þá þarf að breyta aðferðafræðinni.“