*

föstudagur, 22. mars 2019
Innlent 20. febrúar 2018 08:06

Segja kaupréttinn í Arion ótvíræðan

Bankasýsla Ríkisins sendir tillögu til ráðherra um sölu á 13% eignarhlut í Arion banka hf. til Kaupskila.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Bankasýsla ríkisins hefur sent fjármála- og efnahagsráðherra tillögu um að selja Kaupskilum ehf. 13% eignarhlut ríkisins í Arion banka hf. 

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur Kaupskil tilkynnt um að þeir hyggist nýta sér kauprétt félagsins samkvæmt hluthafasamkomulagi frá árinu 2009. Hljóðar tillaga bankasýslunnar til ráðherra að hann undirriti samning um uppgjör kaupréttarins.

Það er niðurstaða stofnunarinnar að Kaupskil ehf. hafi einhliða, ótvíræðan og fortakslausan samningsbundinn rétt til að kaupa hlut íslenska ríkisins í Arion banka hf. á grundvelli fyrrgreinds hluthafasamkomulags. 

Í hluthafasamkomulaginu kom fram hvernig kaupréttarverðið skyldi reiknað út. Undirliggjandi forsendur voru að ríkissjóður skyldi ávaxta upphaflegt hlutafjárframlag (áskriftarverð) sitt til bankans miðað við tiltekna vexti, 5% áhættuálag og árafjölda.

Stofnunin hefur yfirfarið útreikning á kaupréttarverðinu og fengið staðfestingu Grant Thornton á því. Niðurstaðan er að kaupréttarverð, miðað við uppgjör þann 21. febrúar nk., er  23.422.585.119 kr. sem er sama verð og birtist í tilkynningu Kaupskila ehf. um nýtingu kaupréttarins.