Kaupskil ehf., dótturfélag Kaupþings, hefur selt tæplega 583 milljónir hluta í Arion banka, eða um 29,18% hlutafjár í bankanum, fyrir ríflega 48,8 milljarða króna. Kaupendurnir eru erlendir sjóðir.

Eftir útboðið hefur hlutur Kaupþings í Arion banka lækkað í 57,9% af útgefnu hlutafé Arion banka.

Að auki veita kaupsamningarnir fjárfestum kauprétt að 437.191.585 hlutum í Arion banka (sem jafngildir 21,9% af útgefnu hlutafé) á verði sem er yfir því kaupverði sem greitt var fyrir í útboðinu. Kaupréttir renna út áður en kemur að mögulegu almennu útboði á hlutum í Arion banka.

Miðað við söluandvirði hlutanna nú er heildarvirði alls hlutafjár í bankanum um 167,2 milljarðar króna.

Í tilkynningu til kauphallarinnar segir að söluandvirðið verði allt nýtt til að greiða inn á 84 milljarða króna skuldabréf ríkissjóðs sem var hluti af stöðugleikaframlagi Kaupþings sem samþykkt var við nauðasamninga félagsins.

Eftirfarandi tafla sýnir hluthafa Arion banka eftir útboðið.

  • Kaupskil ehf. 57,9%
  • Bankasýsla ríkisins 13%
  • Attestor Capital LLP í gegnum Trinity Investment Designated Activity Company 9,99%
  • Taconic Capital Advisors UK LLP í gegnum TCA New Sidecar III s.a.r.l. 9,99%
  • Sculptor Investments s.a.r.l., félag tengt Och-Ziff Capital Management Group 6,6%
  • Goldman Sachs International í gegnum ELQ Investors II Ltd. 2,6%