Shell hefur viðurkennt að hafa samið við dæmdan mann þegar félagið fékk aðgang að gríðarlegum olíulindum í Nígeríu.

Viðurkenningin kom í kjölfar þess að tölvupóstar voru birtir sem sýndu að Shell hafi átt í samningaviðræðum við Dan Etete sem síðar var sakfelldur fyrir peningaþvætti tengt öðru máli að því er segir í frétt BBC um málið.

Mestallt féð rann til einkafyrirtækis

Shell og ítalskt olíufyrirtæki borguðu 1,3 milljarða Bandaríkjadala til nígerískra stjórvalda fyrir aðgang að olíulindunum. Ítalskir saksóknarar segja nú að 1,1 milljarður dala af þeirri upphæð hafi runnið til fyrirtækisins Malubu sem lúti stjórn Etete.

Skjöl saksóknaranna sýna nú að 466 milljónir af þeirri upphæð hafi síðan verið þvættað og komið í hendur forseta landsins á þeim tíma, Goodluck Jonathan og annarra í ríkisstjórn hans.

Málaferli um olíuréttindi

Shell hefur hingað til haldið því fram að fyrirtækið hafi einungis greitt fé til nígerískra stjórnvalda til þess að ná sáttum um langvarandi málaferli um hver ætti olíurétt á OPL 245 svæðinu, sem er undan strönd Níger ármynnisins.

En nú hefur talsmaður fyrirtækisins viðurkennt að það hafi verið í samskiptum við Malabu og Etete áður en skrifað var undir samningana.

Borguðu sekt til bandarískra stjórnvalda

Á þeim tíma sem Shell stóð í samningaviðræðunum um aðgang að olíulindunum var fyrirtækið í viðræðum við dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna sem lauk með 30 milljón dala sektargreiðslu vegna spillingarmála erlendis.

Skuldbatt fyrirtækis sig jafnframt til þess að ná betri stjórn á innri málum og fylgja hörðum lögum Bandaríkjanna gegn spillingu.