„Ég hef í sjálfur sér ekki áhyggjur af fjölgun ferðamanna ef bæði stjórnvöld og greinin sjálf stendur sig. En það er ljóst að gosið í Eyjafjallajökli hefur gert fyrri spár um fjölgun þeirra hér úreldar,“ segir Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar. Hann boðar í dag til sérstakrar umræðu á Alþingi um málið. Til andsvara verður Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.

Sigmundur bendir á það í samtali við vb.is ferðamönnum hafa fjölgað mjög mikið síðustu áratugi. Þeir hafi verið um 100 þúsund árið 1980 og stefni í tíföldun þeirra nú og jafnvel meira og kallar eftir frekari stefnumörkun í þessum málaflokki.

Aðgerðir í sjö liðum

Í umræðunum í dag ætlar Sigmundur að leggja til aðgerðir í sjö liðum svo hægt verði að bjóða ferðamönnum upp á einstaka náttúru í viðkvæmu umhverfi. Þar á meðal þarf að auka fjármagn til uppbyggingar á eftirsóttustu ferðamannastöðunum, fjölga þarf áfangastöðum ferðamanna, efla afþreyingu í greininni til að fá ferðamenn til stoppa lengur á hverjum stað,  taka afstöðu til gjaldtöku á ferðamannastöðum og finna leiðir til að dreifa ferðafólki betur yfir landið eins og flestar nágrannaþjóðir hafa gert, dreifa ferðamönnum betur yfir árið og auka rannsóknarfé til ferðaþjónustu í meiri mæli en áður.

„Ferðaþjónustan er að verða alvöru atvinnugrein,“ segir Sigmundur og bætir við að til marks um það afli greinin um 200 milljörðum króna sem er um 12% af vergri landsframleiðslu. Á sama tíma stingi í augu að opinbert rannsóknarfé til ferðaþjónustunnar er á að giska eitt prósent af því sem fer til rannsókna í landbúnaði og sjávarútvegi.