*

þriðjudagur, 12. desember 2017
Innlent 7. desember 2017 17:35

Skeljungur lækkar mest

Það var tiltölulega rólegt á markaði í dag en úrvalsvísitalan lækkaði um 0,16% í 1,4 milljarða viðskiptum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland lækkaði um 0,16% í dag en viðskipti á hlutabréfamarkaði námu rúmlega 1,4 milljarði króna. Aðalvísitala skuldabréfa hækkaði um 0,01% og stendur því í 1.365,38 stigum, en viðskipti með skuldabréf námu tæplega 1,9 milljarði króna.

Nýherji hækkaði mest eða um 2,14% en í óverulegum viðskiptum. Önnur félög hækkuðu töluvert minna en næst mest hækkuðu bréf fasteignafélagsins Reita eða um 0,57% í 72 milljón króna viðskiptum. Bréf Reita standa því í 87,50 krónum.

Mest lækkun var á bréfum Skeljungs en þau lækkuðu um 1,47 % í 170 milljón króna viðskiptum og stóðu í 6,69 krónum við lokun markaða. Þá lækkuðu bréf Marel næst mest eða um 0,47% í 70 milljón króna viðskiptum og stóðu í 321,00 krónu við lokun markaða.

Mest voru viðsipti með bréf Tryggingamiðstöðvarinnar en þau námu 397 milljónum króna. Tryggingamiðstöðin hækkaði um 0,30% og standa bréf þess í 33,10 krónum.

Vísitölur Gamma

Hlutabréfavísitala Gamma lækkaði um 0,14% í dag í 1,4 milljarðs viðskiptum.

Skuldabréfavísitala Gamma stóð í stað í 1,5 milljarða viðskiptum. Verðtryggði hluti vísitölunnar stóð í stað í liðlega 0,4 milljarða króna viðskiptum og óverðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði um 0,01% í tæplega 1,1 milljarðs viðskiptum.