Vesturhús höfuðstöðva Orkuveitu Reykjavíkur (OR), er illa farið af rakaskemmdum og ljóst er að mjög kostnaðarsamt verður að gera við það. Kostnaður er að lágmarki 1.740 milljónir króna eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá. Málið var rætt á stjórnarfundi OR í gær þar sem ýmsum möguleikum var velt upp að því er segir í fréttatilkynningu frá OR.

Í september árið 2015 urðu starfsmenn OR varir við rakaskemmdir á innanverðum útveggjum vesturhússins við Bæjarháls. Mat á eðli og umfangi skemmdanna leiddi í ljós að skemmdirnar væru ekki bundnar við ákveðin svæði í húsinu heldur voru allir útveggir þess skemmdir.

Vesturhúsið stendur autt í dag. Tilraunaviðgerð hófst um mitt ár 2016 og nemur áfallinn kostnaður vegna skemmdanna 460 milljónum króna.

Í júní síðastliðnum lá fyrir mat á árangri tilrauna til viðgerða og síðan þá hafa valkostir um framhaldið verið kannaðir  Einn af þeim valkostum sem stendur til boða er að rífa vesturhúsið og byggja nýtt og minna hús á grunni þess gamla. Yrði þessi leið farinn myndi kostnaður nema að minnsta kosti 3.020 milljónum króna.

Sex leiðir sem hafa verið skoðaðar:

  • REGNKÁPA: Kostnaður 1.740 milljónir — Áætlaður líftími 50 ár — Verktími 18 mánuðir
  • LAGFÆRING VEGGJA:  Kostnaður 1.500 milljónir — Áætlaður líftími 15 ár — Verktími 24 mánuðir
  • NÝIR VEGGIR (álgluggakerfi): Kostnaður 2.880 milljónir — Áætlaður líftími 50 ár — Verktími 33 mánuðir
  • NÝIR VEGGIR (stál og timbur): Kostnaður 2.380 milljónir — Áætlaður líftími 50 ár — Verktími 33 mánuðir
  • RÍFA HÚSIÐ (byggja minna hús á grunni þess gamla): Kostnaður 3.020 milljónir — Áætlaður líftími +50 ár — Verktími 42 mánuðir
  • RÍFA HÚSIÐ (starfsemi flutt í önnur hús á lóðinni): Kostnaður 2.150 milljónir —    Áætlaður líftími +50 ár — Verktími 18 mánuðir

Í tilkynningunni frá OR er haft eftir Bjarna Bjarnasyni, forstjóra:

Þetta eru vond tíðindi. Við verðum þó að takast á við þann veruleika sem við okkur blasir. Okkur liggur ekki á að ákveða okkur og getum þess vegna gefið okkur tíma í gott samtal um hvernig er best að ráða fram úr stöðunni. Vesturhúsið stendur autt í dag og það truflar ekki grunnþjónustu við viðskiptavini.