Margrét Kristmannsdóttir, framkvæmdastjóri PFAFF og fyrrverandi formaður Samtaka verslunar og þjónustu, gagnrýnir lífeyrissjóði fyrir að vera ekki samkvæmir sjálfum sér þegar kemur að viðbrögðum við innherjaviðskiptum í pistli á Eyjunni .

Margrét segir að lífeyrissjóðir landsins og karlarnir sem þeim stjórna hafi á sínum tíma lýst yfir óánægju sinni með sölu Katrínar Olgu Jóhannesdóttur á bréfum sínum í Icelandair upp á rúmar 9 milljónir. Hins vegar hafi þeir ekki brugðist jafn harkalega við þegar karlkyns stjórnendur hafi selt hlut sinn.

Hún tekur dæmi af fimm sölum sem ekki rötuðu í blöin, sölu stjórnarformanns Nýherja á bréfum sínum fyrir 130 milljónir árið 2015, sölu stjórnarmanns í Marel fyrir 124 milljónir árið 2016, sölu helstu stjórnenda Haga á bréfum félagsins fyrir hundruð milljóna árið 2016, sölu helstu stjórnenda og stjórnarmanna N1 fyrir hundruð milljóna árið 2017 og sölu stjórnarformanns TM fyrir 172 milljónir árið 2017.

„Þegar viðbrögð við sölu Katrínar Olgu eru höfð til hliðsjónar við þessum milljóna viðskiptum vekur furðu að lífeyrissjóðirnir hafi þagað þunnu hljóði þegar allar þessar sölu gengu í gegn. Eða vekur það eingöngu reiði þegar kona selur fyrir 9 milljónir sem er örhlutur í samanburði við upphæð strákanna?

Allavega sáu lífeyrissjóðirnir ekki ástæðu til að tryggja Katrínu Olgu áframhaldandi setu í stjórn Icelandair og verður áhugavert að fylgjast með hvort að sala strákanna muni hafa áhrif á stöðu þeirra enda hljótum við sjóðsfélagar að gera þá kröfu að lífeyrissjóðirnir séu samkvæmir sjálfum sér í sínum störfum,“ skrifar Margrét.