Þegar horft er til framtíðar segir Ómar Svavarsson, forstjóri Securitas, hvað mestar tækniframfarir eiga sér stað í myndavélum um þessar mundir. „Við erum að setja upp myndavélakerfi á Suðurlandi, frá Árborgarsvæðinu til Hafnar í Hornafirði, fyrir lögregluembættin á því svæði fyrir eftirlit með númeraplötum. Það er hægt að nýta til að átta sig á bæði umferðarþunga og að leita eftir einstökum bílum. Öll vinnslan á sér stað í vélinni sjálfri. Hún er með gervigreind sem skráir og flokkar þetta allt sjálf.“

Þetta segir hann spara dýrmætan tíma sem bæði hjálpi lögreglunni að bregðast tímanlega við, og spari mikinn launakostnað við að yfirfara myndefni handvirkt, eins og áður þurfti að gera. „Lögreglan er mun fljótari að bregðast við og átta sig á stöðunni. Það er mikil þróun þarna; í nánast öllum embættum á landinu er verið að byggja svona kerfi upp.“

Myndavélagervigreind má þó nota í fleira en löggæslu. Til dæmis eru verslanir og stærri fyrirtæki farin að líta til sams konar tækni. „Þú vilt geta talið inn, talið út, vitað hvar fólk er. Fyrirtæki eru að fjárfesta í því að geta lágmarkað sína áhættu og bætt sína stjórnun og skipulag. Þróunin er bara mjög skemmtileg og eins með gervigreindina, hún lærir á hvað er rétt hegðun og hvað er röng hegðun. Hún getur til að mynda látið þig vita ef viðskiptavinir haga sér með öðrum hætti en þeir eiga að haga sér. Þá er hægt að kalla til eftirlit eða nánari skoðun.“

Heimavörn sem notast við vélnám
Á síðasta ári kynnti Securitas nýja heimavörn í samstarfi við alarm.com, sem er eitt stærsta öryggisfyrirtæki heims á sviði heimila og lítilla og meðalstórra fyrirtækja, en notendur á heimsvísu eru um 6 milljónir. Í heimavörninni er notast við svokallað vélnám (e. machine learning) og lærir kerfið með tímanum að þekkja hið óeðlilega frá hinu eðlilega. „Þegar við settum þetta upp heima hjá mér, þá tók það alveg 1-2 mánuði fyrir kerfið að læra á heimilislífið. Vélin var alltaf að spyrja mig hvort tiltekinn atburður væri eðlilegur. Þú þarft að hjálpa henni.“

Kerfið fer í raun yfir daglegt líf og útilokar smátt og smátt, með hjálp notandans, það sem er eðlilegt, og eftir stendur því það sem er óeðlilegt, sem kerfið lætur þá vita af. „Kerfið gæti til dæmis spurt hvort það sé eðlilegt þegar svalahurðin er opnuð klukkan fjögur að nóttu til. Svo eftir smá tíma fara að koma viðvaranir um að eitthvað óvenjulegt sé í gangi.“

Kerfið hjálpar til við ýmislegt fleira en bara að vara við hugsanlegum innbrotum. „Þeir sem eru með börn á heimilinu kannast kannski við að þau eiga það til að hlaupa út og gleyma að setja kerfið á, eða jafnvel að loka hurðinni. Notandinn fær þá bara ábendingu um að kerfið hafi ekki verið sett á, en enginn sé heima. Eða að hurðin sé opin. Þetta veitir fólki ákveðna hugarró.“

Kerfið skiptist þar að auki niður í einstakar einingar sem einstakir heimilismeðlimir geta notað persónulega. „Prinsessunni á heimilinu þykir rosalega vænt um að geta fylgst með hverjir koma inn í herbergið sitt þegar hún er ekki heima. Það er bara hennar einkalíf.“ Kerfið sér þannig ekki aðeins um að halda heimilinu öruggu fyrir utanaðkomandi aðilum, heldur einnig einstökum heimilismeðlimum fyrir ágangi annarra. „Það má segja það já,“ segir Ómar og hlær.

Ómar segir þessa þróun rétt að byrja, og tekur annað dæmi af nýjung í heimavarnarkerfinu. „Ég er til dæmis með dyrabjölluna tengda við símann hjá mér, þannig að ef einhver hringir bjöllunni þá get ég svarað hvort sem ég er heima, í vinnunni, eða erlendis. Innbrot eru að verða skipulagðari, menn eru farnir að hringja og banka til að átta sig á því hvort einhver sé heima, svo það getur skipt sköpum. Svo er líka hægt að opna hurðina tímabundið til að hægt sé að koma með pakka, og ég get að sjálfsögðu fylgst með því að allt sé með felldu í símanum á meðan.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér .