Greiningardeild Arion banka spáir því að peningastefnunefnd Seðlabankans muni hækka stýrivexti bankans um 0,5% á næsta vaxtaákvörðunarfundi. Þetta kemur fram í frétt á vef bankans.

Þar segir að undanfarið hafi peningastefnunefndin tekið afar skýrt fram að hún muni hækka stýrivexti á næstu mánuðum og misserum. Í síðustu yfirlýsingu nefndarinnar hafi sagt:  „Enn fremur virðist einsýnt að hækka þurfi vexti umtalsvert í ágúst og frekar á komandi misserum eigi að tryggja stöðugt verðlag til lengri tíma litið.“

Síðan þá hafi verðbólguhorfur ekki breyst stórlega. Enn sé talsverður uppgangur víða í hagkerfinu og innstreymi fjármagns, sem birtist í um 70 milljarða króna gjaldeyriskaupum Seðlabankans frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi, ýti enn frekar undir eftirspurn í hagkerfinu. Þá sé enn óvíst hvernig skattalækkanir og boðaðar aðgerðir stjórnvalda í húsnæðismálum verði fjármagnaðar en peningastefnunefnd sagði í júní að bankinn myndi „grípa til viðeigandi aðgerða til mótvægis ef þörf krefur“.

„Vegna þessa teljum við að Seðlabankinn muni hækka vexti um 50 punkta í næstu viku og um 125 punkta samtals það sem eftir lifir árs, að vaxtahækkun í ágúst meðtalinni. Þannig spáum við að vextir á 7 daga bundnum innlánum verði 6,25% í lok árs og að verðbólga verði þá komin yfir 3%. Framundan eru þrír aðrir vaxtaákvörðunardagar á árinu og mesta óvissan er um hversu hratt Seðlabankinn mun hækka vexti. Við teljum þó að hann muni stíga frekar varlega til jarðar og muni ekki hækka vexti um meira en 50 punkta í einu á þeim vaxtaákvörðunarfundum sem eftir eru á árinu,“ segir í fréttinni.