*

fimmtudagur, 19. júlí 2018
Innlent 13. september 2017 10:10

Spá 3,0% verðbólgu á næsta ári

Íslandsbanki spáir að draga fari úr hækkunum á íbúðarverði og launa og minni hækkanir verði eftir útsölulok en venjulega.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Greining Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs hækki um 0,5% í september frá fyrra mánuði, sem þýðir að verðbólga aukist úr 1,7% í 1,8%. Segir bankinn að verðbólguhorfur haldist stöðugar og hún haldist undir verðbólgumarkmiði út árið. Spáir bankinn 0,2% hækkun vergrar neysluvísitölu í október, 0,1% hækkun í nóvember og 0,3% hækkun í desember, svo hún mun mælast 2,3% í árslok.

Síðan spáir bankinn hóflegri verðbólgu hérlendis á spátímabilinu, svo lengi sem gengi krónu gefi ekki verulega eftir en bankinn spáir að gengið verði á svipuðum slóðum og verið hefur að meðaltali það sem af er ári, að því er segir í nýbirtri greiningu bankans.

Jafnframt gerir bankinn ráð fyrir að jafnt og þétt dragi úr hækkunartakti íbúðaverðs og launa eftir því sem líður á spátímann en verðbólga aukist samt sem áður nokkuð eftir sem á líður komandi vetur. Hún nái síðan jafnvægi undir næsta vor rétt yfir 2,5% verðbólgumarkmiðinu, en fari upp í rétt um 3,0% að jafnaði á næsta ári en fari niður í 2,8% að meðaltali árið 2019.

Minni hækkun eftir útsölur en áður

Mestu munar um hækkunina nú í september að útsölulok en samt sem áður er samanlögð verðhækkun á þeim vöruflokkum sem helst fara á útsölur, líkt og húsbúnaður, föt og heimilistæki, verði almennt minni en sem nam verðlækkuninni í útsölunum. Telja þeir að verðlag á helstu útsöluvörum lækki því á heildina litið á þriðja ársfjórðungi þrátt fyrir veikingu krónunnar vegna aukinnar samkeppni. Vísa þeir þar í að verð á fötum og skóm hafi hækkað óvenjulítið í ágúst miðað við síðustu ár.

Þó húsnæðisliður neysluvísitölunnar haldi áfram að hækka, en hún hefur verið helsti hækkunarvaldur hennar undanfarin misseri, þá eru nú teikn um að heldur sé að draga úr verðþrýstingi á íbúðamarkaði. „Við teljum að reiknuð húsaleiga, sem að mestu endurspeglar þróun íbúðaverðs, muni hækka um u.þ.b. 1,0% í september (0,17% í VNV) en til samanburðar hækkaði þessi liður að jafnaði um 1,8% í mánuði hverjum á fyrri helmingi ársins,“ segir í spá Greiningar Íslandsbanka.

Eldsneyti og matvæli hafa hækkað en flugfargjöld og gisting munu lækka núna í september þó þar sé um árstíðarbundin áhrif að ræða. Líklega verður lækkunin minni en oft áður.