Svartfuglsegg í pökkum
Svartfuglsegg í pökkum
© Aðsend mynd (AÐSEND)
„Það var ansi góð sala síðustu helgi, það seldust svona upp undir tvö þúsund egg, stærsti hlutinn svartfuglsegg, svo seldust líka vel bæði sílamávaegg og svartsbaksegg, en þetta þrennt kom síðustu helgi,“ segir Sigurður Garðarsson í Deplu í Kolaportinu en salan á þessari einu helgi slagar hátt í allt tímabilið í fyrra.

„Þá hugsa ég að salan hafi verið einhver þrjú þúsund egg í heildina. Við höfum verið með meira úrval af eggjum heldur en flestir aðrir, og verið að selja hettumáva- og sílamávsegg og svona ýmislegt, sem eru líka mjög vinsæl. Það eru margir sem hafa í gegnum árin farið á vorin að tína þessi egg, bæði fyrir sjálfa sig og svo eru duglegir einstaklingar að koma með þetta til okkar. Það er verið að tína mávseggin hérna á Miðnesheiðinni og fyrir austan fjall, en svartfugsleggin koma langmest frá Langanesi, og svo höfum við verið að fá smávegis bæði úr Grímsey og Papey.“

Depla hefur löngum boðið upp á ýmis konar sérvöru sem með breyttum matarhefðum sjást óvíða í stórmörkuðunum. „Við sérhæfum okkur svolítið í því að vera með íslenskan mat og fá þennan gamla hefðbunda, þó það sé aðeins misjafnt hvernig okkur tekst að hafa allt á boðstólnum, en við reynum eins og við getum að vera með siginn fisk, og reyktan rauðmaga allt árið og svo auðvitað skötuna og þess háttar vörur eins lengi á árinu og hægt er. Ef Þorramaturinn fæst erum við yfirleitt alltaf með hann,“ segir Sigurður.

„Ferðamennirnir smakka þetta aðeins, en það er ekkert í líkingu við það sem landinn kaupir af þessu, þó er svona einn og einn kaldur sem þorir. Við höfum verið með mikið af eldri fastakúnnum í gegnum árin, en undanfarin þrjú ár hefur verið erfiðasta málið, sérstaklega fyrir þennan hóp, að komast að og fá bílastæði. Það á reyndar við um allan miðbæinn, við erum ekkert einir um að kvarta yfir þessu.

En núna er búið að opna bílastæðakjallarann undir Hafnartorginu og fólk getur farið þangað niður og lagt, þó þeir séu ekkert farnir að auglýsa það eða setja upp almennilegar leiðbeiningar fyrir hvernig eigi að komast að bílastæðunum. Núna er svo loksins búið að klára og opna gangstéttina hérna á milli svo umhverfið er orðið skemmtilegt og Kolaportið aðgengilegra á ný.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Stjórnarformaður Marel segir fyrirtækið tilbúið til skráningar í kauphöllina í Amsterdam.
  • Íslenskt fyrirtæki hannar umhverfisvæna verksmiðju í Kína.
  • Seðlabankinn gerir ráð fyrir 0,4% samdrætti á árinu.
  • Fjallað er um nýtt sendingagjald Íslandspósts.
  • Viðskiptastríð Bandaríkjanna og Kína er komið á nýtt stig.
  • Ítarlegt viðtal við framkvæmdastjóra SagaNatura.
  • Fjallað er um sameiningu Fjármálaeftirlitsins við Seðlabanka Íslands.
  • Umfjöllun um unga frumkvöðla sem hanna og framleiða róbotasett.
  • Nýr framkvæmdastjóri SVFR er tekin tali.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs sem fjallar um stjórnarskrárbrot Jóhönnu-stjórnarinnar.
  • Óðinn skrifar um ferðamenn, vexti og hagvöxt.
  • Sérblað um fasteignamarkaðinn fylgir blaðinu.