Dane Butswinkas, nýráðinn yfirlögfræðingur Tesla hefur látið af störfum hjá fyrirtækinu eftir tvo mánuði í starfi. Dane Butswinkas, mun snúa aftur til lögmennskustarfa í Washington. Starfslok Butswinkas þykja til marks um óvenjumikla starfsmannaveltu lykilstarfsmanna í kringum Elon Musk, stofnanda Tesla.

Business Insider bendir á að undanfarið ár hafi hátt settir starfsmenn í framleiðslu, fjármálum, sölu og samskiptasviði Tesla yfirgefið fyrirtækið og birtir nöfn t uttugu lykilstarfsmanna sem eru ýmist hættir eða eru á útleið.

Musk er sagður afar krefjandi yfirmaður, sem vill að fólk skili hratt af sér og sé stöðugt að, sem ekki hentar öllum. Starfsmannaveltan hjá Tesla hefur því verið mun meiri en hjá öðrum bílaframleiðendum og flestum tæknifyrirtækjum.

Tesla hyggst hefja framleiðslu á nýjum jeppa, pallbíl og sendibíl ásamt því að byggja verksmiðju í Kína. Maryann Keller, sem stýrir samnefndu ráðgjafafyrirtæki á sviði bílaframleiðslu, segir að mikilvægt sé að hafa stöðugleika í stjórnunarteymi hjá fyrirtæki á borð við Tesla sem hafi svo mikil vaxtaráform. Starfsmannaveltan bendi til þess að of mikil völd séu á hendi Musk.