Á árinu 2015 og fyrri hluta ársins 2016 á Stefnir hf. að hafa sent nokkrar tilkynningar til Fjármálaeftirlitsins um að fjárfestingar sjóðs í þeirra umsýslu hefðu farið umfram fjárfestingarheimildir laga númer 128/2011. Í kjölfarið hóf fjármálaeftirlitið athugun á fjárfestingum sjóðsins. Rannsókn fjármálaeftirlitsins leiddi í ljós að fjárfestingarsjóður Stefnis hefði ítrekað farið yfir fjárfestingarheimildir sínar og þar með gerst brotlegur.

Samkvæmt umræddum lögum er fjárfestingarsjóðum heimilt að binda allt að 20% af eignum sínum í verðbréfum og peningamarkaðsgerningum útgefnum af sama útgefanda. Fjárfestingarsjóðum er þó heimilt að binda allt að 35% af eignum sjóðs í skráðum verðbréfum í kauphöll og peningamarkaðsgerningum útgefnum af sama útgefanda.

Fjárfestingar Stefnis fóru ítrekað yfir þessi mörk. Upphaflegar ástæður brotanna voru verðbreytingar á markaði en tíðni brotanna og tímalengd þeirra leiddu til þess að brotin teljist alvarleg. Helgast þetta einnig af því að um mjög auðseljanlegar eignir var að ræða en Fjármálaeftirlitið lítur svo á að undir slíkum kringumstæðum beri rekstrarfélagið verðbréfasjóða að selja eða grípa til annarra ráðstafana til að ná lögmæltu hámarki án ástæðulauss dráttar.

Fjármálaeftirlitið hefur þó ákveðið að nýta ekki heimild sína til að leggja á stjórnvaldsekt vegna brotsins.