*

mánudagur, 22. apríl 2019
Innlent 29. maí 2016 11:05

Styttri vinnuvika eykur framleiðni

BSRB telur, þvert á skoðun Samtaka atvinnulífsins, að nýtt frumvarp komi til með að auka framleiðni í atvinnulífinu.

Ritstjórn

Eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum hafa þingmenn Pírata, Vinstri grænna og Samfylkingarinnar lagt fram frumvarp sem felur í sér breytingar á lögum um 40 stunda vinnuviku. Nái frumvarpið fram að ganga verður dagvinnustundum á viku fækkað um fimm. BSRB er meðal umsagnaraðila sem styðja að frumvarpið nái fram að ganga. Í samtali við Viðskiptablaðið lýsir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, því hvernig bandalagið telur styttingu vinnuvikunnar eina af forsendum þess að unnt sé að byggja hér upp fjölskylduvænna samfélag. Samfélag sem grundvallast á samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs. „Styttri vinnuvika leiðir að okkar mati til betri starfsánægju og aukinna afkasta, bættrar heilsu og meiri vellíðunar og stuðlar að auknu jafnrétti kynjanna inni á heimilum,“ segir formaðurinn.

Deilt um lengd vinnudagsins

Elín Björg segir sýnt að Íslendingar vinni mun lengri vinnudag en þær þjóðir sem við viljum bera okkur saman við og geti því ekki notið samveru með fjölskyldu og vinum í sama mæli og til dæmis aðrar Norðurlandaþjóðir. Í viðtali við Viðskiptablaðið í síðustu viku mótmælti Hannes G. Sigurðarsson, aðstoðarframkvæmdarstjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), þessari fullyrðingu og sagði staðreyndir tala öðru máli. Sagði hann að í evrópskum samanburði sé umsaminn ársvinnutími stystur á Íslandi að Frakklandi undanskildu. Umfangsmiklar yfirvinnugreiðslur valdi því í raun að lengd vinnutímans sé stórlega ofmetin. Þá telur hann jafnframt að lagabreytingin muni hafa í för með sér verðbólgu og minnkandi framleiðni.

Aðspurð segir Elín að þrátt fyrir að samtökin hafi ólíka sýn á þessi mál séu BSRB og SA ekki svo langt frá hvort öðru í afstöðu sinni. „Aðvitað erum við öll að tala um það hvernig við getum bætt samfélagið okkar og hvernig við getum bætt afkomu okkar allra. Það snýst meðal annars um hvernig við nálgumst þessi verkefni. Það er þó afskaplega sérstakt að tala eins og mikil verðbólga í heilan áratug hafi einungis verið tilkomin vegna styttingu vinnuvikunnar. Það er auðvitað ekki þannig. “

Eykur framleiðni og jafnræði

BSRB mótmæla jafnframt þeirri skoðun SA að miðstýrð stytting dagvinnutíma muni hafa í för með sér minni framleiðni í atvinnulífinu. „Við erum einmitt sannfærð um það að styttri vinnuvika leiði til bættrar heilsu og starfsánægju sem leiði um leið til aukinna afkasta. Þessi krafa um styttri vinnuviku hefur vaxið ár eftir ár og nýtur mikils fylgis almennings og er nú einnig ofarlega á forgangslista aðildarfélaga BSRB. Við trúum því að hér sé um að ræða breytingar sem séu samfélaginu öllu til heilla.“

Nánar er fjallað um málíð í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak í pdf-formi undir Tölublöð.

Stikkorð: BSRB
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim