Ég er rúmlega sextugur og hef verið í iðnaði frá því upp úr 1980 og ýmsa fjöruna sopið. Íslendingar hafa aldrei kunnað farsæla hagstjórn og þess vegna sveiflast hagkerfið hjá okkur eins og kröpp sinuskúrfa.“

Páll Kr. Pálsson lærði iðnaðarverkfræði í Þýskalandi. Hans ferill hófst í ráðgjafarverkefnum hjá Samtökum iðnaðarins, þar sem verið var að takast á við þá erfiðleika sem íslenskur iðnaður lenti í við inngönguna í EFTA. „Það tókst ekki að bjarga ýmsum greinum iðnaðarins, eins og húsgagna-, fata- og skipasmíðaiðnaði. Þær þoldu ekki þessa umbreytingu, en umbreytingar verða oft og maður verður bara að sætta sig við það. Við náðum ekki upp framleiðninni og vorum ekki sérstaklega vel staðsett með tilliti til markaða hvað þessar greinar varðar.“

Eftir að hafa farið illa út úr netbólunni árið 2003 fór Páll aftur í ráðgjöf, en áður hafði hann komið víða við í íslensku atvinnulífi, meðal annars sem framkvæmdastjóri Vífilfells og við stofnun Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins. „Í ráðgjöfinni byrja að fæðast tækifæri þar sem ég vann fyrir bæði fyrirtæki og banka við að skoða fyrirtæki í erfiðleikum sem þurfti að leysa úr. Þá urðu stundum til tækifæri þar sem mér bauðst að ganga inn í fyrirtækin og taka að mér einhvers konar hlutverk – yfirleitt stjórnarformanns og vera með í hluthafahópnum. Þannig kemst ég aftur inn í atvinnulífið og held mig fyrst og fremst við iðnrekstur sem ég þekki best.“

Í viðtali, sem birtist í heild í Viðskiptablaðinu síðasta fimmtudag, segir Páll að á Íslandi sé „svikalogn“.

„Á undanförnum árum hefur dregið mjög úr samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs,“ segir Páll „Við höfum þurft að takast á við að starfsmannakostnaður á Íslandi hefur hækkað um á bilinu 25%-30% á þremur árum. Gengið hefur á sama tíma styrkst um svipaða prósentu. Þetta þýðir í raun að kostnaðarhækkanir eru verðbólga í rekstrinum, sem hefur verið yfir 15% á ári undanfarin ár. Fyrirtæki sem eru að keppa við innflutning eða byggja tilvist sína á útflutningi, ferðaþjónustan og fleiri greinar búa við þetta. Á sama tíma hrósa íslenskir stjórnmálamenn sér af stöðugleika. Meiri vitleysan.

Ég hef ekki getað hækkað verð í minni starfsemi í meira en tvö ár þannig að við höfum þurft að taka á okkur þessar kostnaðarhækkanir, sem hefur kallað á miklar hagræðingar. Ég hef þurft að leggja fyrirtækinu til aukið fjármagn og þetta hefur verið mjög erfitt. Ég tel að við séum nú búin að ná tökum á þessu, trimma allt niður, þannig að fyrirtækið geti skrimt eins og ástandið er núna. En meðan stjórnmálamenn tala eins og að hér sé allt í blóma og mikill stöðugleiki þá trúir fólk því.

Öll stóru samtökin í atvinnulífinu hafa undanfarin misseri bent á í hvað stefnir og talað um þetta sem svikalogn. Það var svikalogn 2007 og það kom fárviðri haustið 2008. Það er svikalogn á Íslandi núna. Ég segi ekki að það sé að koma fárviðri en fullyrði að á næsta ári gerast hlutir sem verða sársaukafullir fyrir allan almenning ef ekki verður gripið inn í hagstjórnina með skynsamlegum aðgerðum nú þegar.“

Hvað sérðu fyrir þér að muni gerast? „Ástandið núna, hvað rekstrarskilyrði samkeppnisgreinanna varðar, er ekki ósvipað því sem var 2007. Gengið er þannig í dag að flest sjávarútvegsfyrirtæki nema þau allra stærstu með allra mestu hagkvæmnina eru rekin með tapi. Ferðaþjónustan er í dag meira og minna rekin með tapi, þótt það séu vissulega líka undantekningar þar.

Ástæðan er einfaldlega sú að gengið er of sterkt fyrir samkeppnisgreinarnar. Það leiðir til þess að þrátt fyrir fjölgun ferðamanna í ár þá skila þeir litlu minna í krónum en í fyrra. Ferðaþjónustan á Vestfjörðum, Vesturlandi, Norðurlandi og Austfjörðum hrópar að veltan sé minni 2017 en hún var 2016. Það er búið að fjárfesta mjög mikið og nú er komið að skuldadögum. Mörg fyrirtæki í þessum greinum munu ekki hafa getu til að greiða það sem þau þurfa að greiða. Ég spái því að ef ekki verður veruleg umpólun í hagstjórninni og peningamálastefnunni þá lendum við í því á næsta ári að það verður töluvert af uppsögnum og samdrætti í atvinnulífinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .