*

fimmtudagur, 17. ágúst 2017
Innlent 12. ágúst 2017 13:10

Þrjú þúsund starfsmenn í 20 löndum

Þó rætur Össurar og höfuðstöðvar séu á Íslandi er meginþorri starfseminnar á erlendri grundu.

Snorri Páll Gunnarsson
Eva Björk Ægisdóttir

Össur er eitt stærsta fyrirtæki landsins og annar stærsti stoðtækjaframleiðandi í heimi.

Jón Sigurðsson hefur verið forstjóri Össurar í rúmlega tuttugu ár, eða frá árinu 1996. Segja má að mikil straumhvörf hafi orðið í fyrirtækinu þegar Jón tók við stjórnvelinum, en í forstjóratíð hans hefur Össuri sannarlega vaxið fiskur um hrygg. Fyrirtækið hefur farið úr því að vera lítið stoðtækjaverkstæði með eina vöru og 40 starfsmenn í að skipa sér í fremstu röð í stoðtækjaframleiðslu á alþjóðamarkaði. Í dag er fyrirtækið með heildstæða vörulínu um 700 hátæknivara, sitt eigið dreifikerfi og rúmlega 3.000 starfsmenn í 20 löndum í þremur heimsálfum. Velta fyrirtækisins hefur rúmlega 50-faldast frá árinu 1996 og hagnaðurinn margfaldast sömuleiðis.

Rætur Össurar og höfuðstöðvar eru á Íslandi, en meginþorri starfseminnar er á erlendri grundu. Framleiðslan fer aðallega fram í Mexíkó, Kína og á Íslandi. Þróunarstarfsemin er að stærstum hluta á hér á landi, en einnig í Frakklandi, Bandaríkjunum og Skotlandi. Stærstu viðskiptavinir Össurar eru heilbrigðisstofnanir og stoðtækjaverkstæði um allan heim.

Eftir að fyrirtækið skráði sig á innlendan hlutabréfamarkað fór af stað yfirtökuhrina þar sem Össur keypti alþjóðleg fyrirtæki í heilbrigðistækniiðnaði.

„Frá árinu 2000 höfum við keypt yfir 20 erlend fyrirtæki, sem hefur fyllt í vöruframboð okkar og gefið okkur aðgang að stærra söluneti," segir Jón. „Okkar stefna hefur alltaf verið sú að stjórna okkar eigin dreifikerfi og nota ekki umboðsaðila, vegna þess að okkar vöxtur grundvallast að miklu leyti á sölu á hátæknivörum."

Nánar er rætt við Jón Sigurðsson, forstjóra Össurar, í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.