Lóðarhafar við sunnanverða Hafnarfjarðarhöfn hafa stofnað félagið Flensborg utan um uppbyggingu og þróun svæðisins. Um er að ræða svæði þar sem Ísfélag Hafnarfjarðar og Slippurinn höfðu starfsemi.

Þar er tiltölulega opið svæði eins og er en Jón Rúnar Halldórsson, framkvæmdastjóri Flensborgar, segir Hafnarfjarðarbæ vera að vinna að breyttu skipulagi fyrir svæðið. „Það á kannski að koma einhvers konar manneskjulegra umhverfi þarna,“ segir Jón.

Til dæmis hafi verið rætt um ferðatengda starfsemi í því samhengi. Kynningarfundur um verkefnið hafi verið haldinn fyrir nokkrum mánuðum og skipulagsvinnunni ljúki væntanlega einhvern tímann í vetur.