Ásdís Kristjánsdóttir forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinulífsins segir margt benda til að uppsveiflunni í íslenska hagkerfinu ljúki fyrr en talið.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu en Ásdís nefnir þessu til stuðnings að Seðlabankinn hafi í maí spáð 6,3% hagvexti fyrir árið 2017, en í nýjustu peningamálum bankans frá 7. febrúar hafi hann hins vegar gert ráð fyrir að hagvöxturinn hafi numið 3,4% á síðasta ári.

„Viðsnúningurinn er hraðari en spáð var. Til dæmis er að hægja verulega hratt á vexti ferðaþjónustunnar,“ segir Ásdís sem segir óraunhæft að laun geti hér hækkað margfalt meira en í helstu viðskiptalöndum. Segir hún enda ekki hægt að treysta á álíka vöxt kaupmáttar og undanfarin misseri á sama tíma og verðstöðugleikinn hafi haldist sem hafi verið ófyrirséð.

„Í fyrsta lagi vorum við heppin með þróun viðskiptakjara. Þau hafa verið okkur hagstæð á undanförnum árum sem hefur veitt aukið svigrúm til launahækkana. Í öðru lagi styrktist krónan verulega samfara miklum vexti ferðaþjónustunnar. Það skilaði sér í verðlækkun á innfluttum vörum og þar með minni verðbólgu. Í þriðja lagi kom til einskiptisaðgerða frá ríkisstjórninni og t.d. voru gerðar breytingar á tollum og vörugjöldum.“

Segir hún ekki hægt að treysta á að þetta haldi áfram, með áframhaldandi hagstæðum viðskiptakjörum, t.d. sé lækkun tolla ekki möguleg nema einu sinni og frekari gengisstyrking sé ólíkleg. Segir hún að spáð sé að fjárfesting og einkaneysla taki við sem drifkraftur hagvaxtar á komandi árum í stað útflutnings.

„Þrátt fyrir gífurlegan hagvöxt á undanförnum árum er hins vegar afgangur á viðskiptum okkar við útlönd; útflutningstekjur okkar standa enn undir innfluttri neyslu,“ segir Ásdís.

„Það getur þó hæglega breyst ef innflutningur eykst samtímis því sem samkeppnisstaða útflutningsgreina fer versnandi. Það verður áskorun að viðhalda jafnvægi síðustu ára.“