Sævar Kristinsson, sérfræðingur KPMG í stefnumótun og framtíðarfræðum, hefur að eigin sögn áhuga á fortíðinni en ástríðu fyrir framtíðinni. Hann er í dag hluti af teymi innan KPMG sem aðstoðar fyrirtæki og stjórnvöld við sviðsmyndagerð og stefnumótun með það fyrir augum að hjálpa þeim að greina tækifæri framtíðarinnar sem og bregðast við ófyrirséðum ógnum. Hann talar nú meðal annars fyrir því að stjórnvöld og fyrirtæki í landinu veiti framtíðarmálum meiri gaum og að jafnvel verði sett á laggirnar Framtíðarráðuneyti.

En hvað er átt við með hugtakinu „framtíðarmál“? „Grunnhugmyndin er sú að fyrirtæki, einstaklingar og stjórnvöld verða að beina sjónum sínum í mun meira mæli til framtíðar og haga aðgerðum í dag eftir því hvernig við viljum hafa framtíðina. Það er gjarnan sagt að besta leiðin til að skapa sér bjarta framtíð sé að taka þátt í að móta hana og það gerir maður ekki með því að rýna eingöngu til fortíðar. Við verðum alltaf að vera meðvituð um hvaða áhrif aðgerðir okkar í dag hafa til framtíðar,“ segir Sævar.

Framtíðarmál hafa lengi verið verið Sævari hugleikin. „Ég og félagar mínir Karl Friðriksson, framkvæmdastjóri Nýsköpunarmiðstöðvar og Eiríkur Ingólfsson, ráðgjafi í Noregi, höfum unnið að ýmsum verkefnum saman. Í störfum okkur fundum við sterkt fyrir því að fólk velti oft meira fyrir sér fortíðinni en framtíðinni. Að stjórna fyrirtækjum eftir rekstri síðustu ára er svipað og að stýra bifreið eftir baksýnisspeglinum og það kann ekki góðri lukku að stýra. Við vildum auðvelda fólki þessa nauðsynlegu framtíðarrýni með ákveðinni aðferðafræði og sökktum okkur því í viðfangsefnið,“ segir Sævar.

Eftir mikla rannsóknavinnu gáfu þeir út bókina Framtíðin – frá óvissu til árangurs sem kom út árið 2007. Framtíðarfræðin eru þekkt og mikið nýtt erlendis og eru að sögn Sævars kennd í háskólum víða um heim og hafa m.a. verið kennd hér á landi í tengslum við stefnumótun, áhættugreiningu og fjármálafræði.

Undirbúin fyrirefnahagshrunið

Að sögn Sævars hefur teymið sem hann er hluti af hjá KPMG innleitt og unnið sviðsmyndir fyrir hátt á annað hundrað stofnanir og fyrirtæki. „Sviðsmyndagerð snýst um það þegar menn horfa og skipuleggja sig til framtíðar með markvissum hætti. Menn halda oft að við séum að rýna í einhvers konar kristalskúlur en það er langt því frá. Þetta er í raun fastmótuð aðferðarfræði sem byggir á öguðum vinnuferlum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi undir T ölublöð.