*

sunnudagur, 26. maí 2019
Innlent 28. október 2018 14:35

Vill kostnaðarmeta lýðheilsu

Formaður VR segir að í mati á kostnaði við kröfugerð félagsins sé reiknað með ávinningi af aðgerðum sem ekki sjáist í Excel.

Höskuldur Marselíusarson
Ragnar Þór Ingólfsson er formaður VR sem nýlega lagði fram kröfugerð sína í fyrir komandi kjarasamningagerð.
Haraldur Guðjónsson

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR segir að í kostnaðarmati félagsins á kröfugerð sinni fyrir komandi kjarasamninga sé ekki bara reiknað með kostnaði heldur einnig samfélagslegum ávinningi við aðgerðirnar sem félagið fer fram á.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um segir Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA misskilnings gæta í málflutningi Ragnars Þórs um svigrúm í hagkerfinu til launahækkana.

„Við erum að kostnaðarmeta lýðheilsulegan ávinning, bæði fyrir skattkerfið og fyrir sveitarfélögin. Það er margt sem við tökum þannig inn í þetta sem skiptir mjög miklu máli en er almennt lítið í umræðunni. Einnig erum við að kostnaðarmeta tekjustreymið til fyrirtækja til að standa undir hækkununum, en við gerum til dæmis ekki ráð fyrir kostnaði af styttingu vinnuvikunnar og höfum við fyrir því góð og gild rök,“ segir Ragnar Þór sem nefnir sem dæmi að hann telji mikinn ómælanlegan ávinning af því að afnema til dæmis skerðingar í bótakerfinu.

„Það kostar 12 milljarða að afnema skerðingar í almannatryggingakerfinu en ávinningurinn er eflaust miklu meiri heldur en menn gera sér grein fyrir og mun meiri en excel-skjalið sýnir. Þetta er eins og með tanlækningar, við vitum að seinbúin inngrip þegar allt er orðið svart og brennt er gríðarlega kostnaðarsamt. Það er klárt að laun eru í engu samræmi við framfærsluviðmið og það er eitt kostnaðarmatið.

Sem verkalýðshreyfing getum við aldrei farið út fyrir það grundvallaratriði að semja um laun sem hægt er að lifa af. Við vitum að hóparnir upp í sjöttu tekjutíund leggja ekkert fyrir heldur eyða öllum sínum tekjum þannig að ef við lögum ráðstöfunartekjur þessara hópa þá mun það fara beint út í samneysluna.“

Ragnar Þór fullyrðir að kröfur félagsins muni ekki einungis koma launafólki vel heldur einnig atvinnulífinu.  „Þær skila sér í aukinni veltu fyrirtækja, sem aftur skilar sér í aukinni skattheimtu og aukinni getu fyrirtækja til að borga betri laun og halda fólki í vinnu,“ segir Ragnar Þór.

„Fyrir utan launaliðinn, krónutöluhækkunina sjálfa, erum við með kröfum okkar um að farið verði í skattkerfisbreytingar fyrir lægri og millitekjuhópa, og að bótakerfin verði löguð, bæði skerðingar í barnabóta- og húsnæðiskerfinu, ekki að kalla á beinan kostnað fyrir fyrirtækin í sjálfu sér. En þannig náum við að klóra í þetta framfærsluviðmið fyrir þessa hópa sem hið opinbera hefur sjálft gefið út.“

Formaðurinn viðurkennir að það verði áskorun að fara út í þessar aðgerðir án þess að verðbólgan fari af stað og það þurfi að hækka vexti. „Við erum að fara fram á ákveðið aðgerðaplan varðandi vexti og verðtryggingu sem er ekki eingöngu okkur til hagsbóta, eða bara fyrir fyrirtækin og þjóðina. Heldur líka Seðlabankann sjálfan svo stýrivaxtartólið sem hann beitir virki nú einu sinni því það virðist sem allir viti það nema bankinn að það að hækka vexti hefur engin neyslustýrandi áhrif á 90% þeirra sem eru með húsnæðislán á íslandi því þetta eru verðtryggð jafngreiðslulán,“ segir Ragnar Þór.

„Þvert á það sem verið er að hræða fólk með þá getum við skapað þann stöðugleika til langs tíma sem launafólk og fyrirtæki hafa verið að kalla á, ef við náum kröfum okkar. Það gerist ef við náum breiðri samstöðu og getum þá gert lengri kjarasamning, til lágmarks þriggja ára.

En þá þarf að ná árangri í vaxta- og verðtryggingamálum, sem dæmi ef okkur tekst til dæmis að ná samkomulagi um að fólk geti greitt tilgreindu séreignina inn á lánin sín eða inn á frjálsa sjóði. Einnig ef hægt er að koma hér af stað raunverulegu þjóðarátaki í húsnæðismálum og ef okkur tekst að gera þessar breytingar á skattkerfinu en þannig  getum við náð mun meiri jöfnuði heldur en í gegnum launaliðinn.

Og þá þurfa fleiri félög að koma með okkur inn í þetta, einnig opinberu félögin svo hér verði ekki höfrungahlaup á sex til tólf mánaða fresti þar sem hver hópurinn er að semja fram fyrir hver annan.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim