WOW air getur ekki beðið í fimm ár eftir stækkun Keflavíkurflugvallar og gæti því þurft að flytja hluta starfseminnar erlendis á annan flugvöll til að nýta þau tækifæri sem félagið hefur. Þetta kemur fram í viðtali Skúla Mogensen, forstjóra og eiganda WOW air við Air Transport World .

Í svari Skúla til vefmiðilsins Túristi.is segir hann að allt bendi til þess að Keflavíkurflugvöllur nái ekki að halda í við vaxtaáform WOW á næstu árum. „Við erum að lenda í þrengingum strax á næsta ári þegar við áætlum að fjölga farþegum okkar úr tæpum 750 þúsund í eina og hálfa milljón." Skúli segist gera ráð fyrir að farþegafjöldi WOW verði 2,5 milljónir árið 2017 og að hann hafi verulegar áhyggjur af því að Keflavíkurflugvöllur geti tekið á móti slíkum fjölda.

Áætlanir Isavia gera ráð fyrir 6,2 milljónum farþega árið 2018, en miðað við stækkunaráform WOW telur Skúli að farþegafjöldinn verði a.m.k. 8 milljónir á þarnæsta ári (ef flugvöllurinn geti tekið við slíkum fjölda). Áætlun Ísavia gerir hinsvegar ráð fyrir að farþegafjöldinn yrði ekki 8 milljónir ekki fyrr en 2022 eða 5 árum seinna.