*

miðvikudagur, 22. maí 2019
Ágúst & Veena
25. febrúar 2019 10:01

Af hverju milliverðlagning skiptir máli

„Til einföldunar vísar milliverðlagning til viðmiða sem notuð eru til að áætla rétt verð í viðskiptum milli tengdra aðila.“

Dönsk skattyfirvöld endurákvörðuðu skattgreiðslu að fjárhæð 308 milljónir danskra króna á Microsoft í Danmörku. Rökstuðningurinn var að þóknun fyrir markaðsþjónustu, veitt af Microsoft í Danmörku hefði verið ranglega verðlögð. Að loknum deilum til 10 ára, dæmdi Hæstiréttur Danmerkur skattgreiðandanum í hag. Í Bandaríkjunum boðaði IRS hækkun á skattskyldum hagnaði Coca Cola um 9,4 milljarða bandaríkjadala, sem myndi leiða af sér hækkun heildarskattlagningar á Coca Cola, um 3,3 milljarða bandaríkjadala. Rökstuðningur IRS var á þá leið að þóknanir greiddar frá erlendum dótturfélögum, samkvæmt nytjaleyfissamningi um hugverkaréttindi til framleiðslu og sölu á Coca Cola, væru ranglega verðlagðar.

Hver er rauði þráðurinn í ofangreindum frásögnum? Svarið er hugtak sem þekkt er undir heitinu milliverðlagning. Til einföldunar vísar milliverðlagning til viðmiða sem notuð eru til að áætla rétt verð í viðskiptum milli tengdra aðila. Þrátt fyrir að skilgreining á hugtakinu „tengdir aðilar" kunni að vera misjöfn milli ríkja eru félög sem eiga eignarhald eða stjórn að rekja til sömu aðila almennt talin falla undir hugtakið. Dæmi um viðskipti milli tengdra aðila er t.d. vörusala og leiga á hugverkum.

Grunnhugmyndin að baki milliverðlagningu

Grundvallarregla milliverðlagningar er svokölluð armslengdarregla. Samkvæmt armslengdarreglunni skulu tengdir aðilar verðleggja viðskiptin sín líkt og ef um væri að ræða sambærileg viðskipti milli ótengdra aðila. Þetta má útskýra með dæmi. Franskt lyfjafyrirtæki sem áður hefur látið ótengt evrópskt félag framleiða lyf sín, áformar að setja á stofn dótturfélag á Íslandi sem leysa á ótengda félagið að hólmi hvað varðar framleiðslu á lyfjunum. Milliverðlagsreglur kveða á um að greiðslan til íslenska félagsins skuli vera sambærileg því sem greitt var til ótengda evrópska framleiðandans nema íslenska félagið geti sýnt fram á að þessi tvö viðskipti séu ólík hvort öðru að því er varðar áhættu og starfsemi.

Af hverju skiptir þetta mig máli?

Hvernig snertir þetta mitt fyrirtæki? Þegar öllu er á botninn hvolft eru þessi tengdu fyrirtæki/aðilar hluti af sömu samstæðu. Ef íslenska dótturfélaginu eru greiddar háar fjárhæðir af franska móðurfélaginu, fyrir framleiðsluna, verður hagnaður íslenska félagsins hærri. Ef þessu er snúið við og íslenska dótturfélaginu er greidd lægri fjárhæð verður hagnaðurinn hærri í Frakklandi en lækkar um sömu fjárhæð á Íslandi. Í ársreikningi samstæðunnar má segja að viðskipti milli tengdra aðila „hverfi". Ef einungis er horft á málin frá viðskiptalegum forsendum er hagnaður eða tap samstæðunnar í heild það sama í hvoru dæmi fyrir sig, hvort sem verðlagningin er of eða vanmetin. Eðlilega kann fólk því að að spyrja sig, skiptir þetta nokkru máli?

Staldraðu við!

Það er hárrétt hjá þér að það megi orða það sem svo að viðskiptin „hverfi" í sameiginlegum ársreikningi samstæðunnar en ef horft er á málið frá skattalegum sjónarhóli, skiptir milliverðlagningin máli. Skal það útskýrt með einföldum hætti sem hér segir:

Almennur tekjuskattur fyrirtækja í Frakklandi er um 33% en 20% á Íslandi. Ef franska félagið greiðir minna en almennt gerist til íslenska dótturfélagsins verður afkoma franska félagsins hærri sem leiðir til hærri skattlagningar samstæðunnar því í Frakklandi er hærri skattbyrði. Í þessu tilviki hefur samstæðan glatað tækifæri til að lækka virkt skatthlutfall sitt. Auk þess fylgir sú áhætta að íslensk skattyfirvöld endurákvarði skattstofn íslenska félagsins m.t.t. rangrar kjara í viðskiptunum.

Ef íslenska félagið fær ofgreitt fyrir hlutverk sitt í rekstri samstæðunnar, t.d. ef framlegð íslenska félagsins er 40% á meðan framlegð annarra evrópskra lyfjaframleiðanda er 25%. Í þessu tilviki er hætta á að frönsk skattyfirvöld aðlagi verðlagninguna m.t.t. sambærilegra viðskipta milli ótengdra aðila, þ.e. á þann veg að hagnaðarhlutfall íslenska félagsins yrði 25% í stað 40%. Þessu myndi fylgja breyting á skattstofni franska félagsins og því hætta á tvískattlagningu í þeim tilvikum þar sem íslenska félagið hefur greitt til íslenskra skattyfirvalda skatta af 40% framlegð. Enn fremur má við þetta bæta að franska félagið gæti beðið álitshnekki þar sem félagið gæti væri sakað um skattasniðgöngu í Frakklandi.

Í hinu alþjóðlega umhverfi nútímans er raunveruleg áhætta fólgin í því að gefa milliverðlagningarreglum engan gaum. Þeim þarf að veita rétta athygli í hverju því ríki sem samstæðan er starfrækt. Félög sem ekki gefa milliverðlagningarreglum gaum eiga í hættu á að skila inn röngu skattframtali og ársreikningi.

Samantekt

Í dag hafa yfir 100 ríki ásamt Íslandi innleitt milliverðlagningarreglur. Íslensk félög af öllum stærðargráðum þurfa að huga að þeim ef þau eru með einhverja starfsemi utan Íslands. Að huga að milliverðlagningu snýst ekki einungis um samningagerð og gerð minni skýrslna. Milliverðlagning felur í sér að vandlega sé tekið tillit til hlutverks og áhættu samstæðu þinnar á Íslandi og erlendis. Það þýðir að tryggja skal að ársreikningar, skattframtöl og raunveruleg starfsemi séu ekki í mótsögn við milliverðlagsstefnu samstæðunnar.

Rétti tíminn til að skoða milliverðlagsmál samstæðunnar er því ekki þegar skattyfirvöld óska eftir upplýsingum um hana heldur áður en viðskipti tengdra aðila eiga sér stað.

Ágúst Karl Guðmundsson er lögmaður hjá KPMG.

Veena Parrikar er hagfræðingur hjá KPMG.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim