*

þriðjudagur, 19. febrúar 2019
Brynjar Örn Ólafsson
24. júní 2018 12:31

Ástæður erlendra fjárfesta í hlutabréfum

Þrátt fyrir að einungis 15 aðilar mynda samheitið erlendir fjárfestar í skráðum hlutabréfum verður áhugi þeirra seint skilgreindur einsleitur.

Aðsend mynd

Nýfjárfestingar erlendra fjárfesta í skráðum hlutum íslenskra hlutabréfaútgefenda námu 6,5 milljörðum króna á fyrsta fjórðungi þessa árs samkvæmt síðasta hefti Seðlabankans um fjármálastöðugleika. Þá sýna hluthafaupplýsingar KODIAK að erlendir fjárfestar juku stöður sínar um 2 milljarða í apríl og maí. Til samanburðar námu núvirtar erlendar fjárfestingar í skráðum hlutabréfum 53 milljörðum í fyrra og 16 milljörðum árið 2016.

Horft til eignarhlutar eða atkvæðisréttar hefur staða þessara fjárfesta aukist úr 4% í lok mars árið 2017 í 9% um síðustu mánaðamót. Mest hefur aukningin verið í TM hf. eða úr 3% í 17%. Virði áhættu í einstöku félagi er mest í Eimskipafélagi Íslands hf. fyrir um 13,5 milljarða króna. 

Tilgátur um að innlend fjármálafyrirtæki láni erlendum fjárfestum fyrir hlutabréfakaupum verða ekki afsannaðar hér enda er tölfræði um veðsetningu skráðra hlutabréfa eftir ríkisfangi ekki opinberlega tiltæk. Spyrja mætti af hverju erlendir fjárfestar myndu ekki fremur fara í gegnum safnreikning eða notast við heildarvirðissamninga fremur en að liggja sjáanlega með bréfin ef tilgangurinn væri einvörðungu stöðutaka. 

Þá vekur athygli að erlenda fjármagnið leitar ekki jafnt í öll skráð félög sem greina má á að lítið sem ekkert af því er í Heimavöllum hf., HB Granda hf. og Skeljungi hf. 

Þrátt fyrir að einungis 15 aðilar mynda samheitið erlendir fjárfestar í skráðum hlutabréfum verður áhugi þeirra seint skilgreindur einsleitur. 

Fyrir utan huglægari atriði má nefna meðal annars arðgreiðsluhlutfall innlendra félaga sem er nálægt miðgildi annarra markaða í Evrópu eða 2,5% miðað við arðgreiðslur vegna ársins 2017 samkvæmt KODIAK. Aftur á móti er hlutfallið hærra eða nær 6% hjá skráðu tryggingafélögunum sem hefur vakið áhuga. 

Bókhaldskennitölur sem lýsa stöðunni líkt og sögulega hátt lausafjárhlutfall og eiginfjárhlutfall sem er liðlega 42% hjá fyrirtækjum og hefur ekki verið hærra frá árinu 2002 samkvæmt fyrrgreindri fjármálastöðugleikaskýrslu. Auk mælikvarða fyrir bólumyndun á eignamörkuðum líkt og verð á móti árshagnaði (VH-hlutfall) eða sögulegum tíu ára meðalhagnaði. Líkt og myndin sýnir var VH-hlutfallið um síðustu mánaðamót nálægt sögulegu miðgildi í 15,5. 

Tölur fjármálareikninga Hagstofu Íslands um sögulega hlutabréfaeign erlendra aðila gefa vísbendingar um hversu margir gætu ætlað út í einu á sama tíma. Í lok árs 2016 nam hlutabréfaeign erlendra aðila um 39% af vergri landsframleiðslu og hafði lækkað um tíu prósentustig frá árinu áður. Hæst var hlutfallið 75% árið 2007. 

Horft framhjá upplýsandi tilgangi greinarinnar áttar lesandi sig á að takmörk eru fyrir innflæði erlends fjármagns á hlutabréfamarkaðinn en þar til þeim er náð er spurning hvort ástæða sé til að vera ekki fyrri til?

Grein þessi er einungis rituð og birt í upplýsingaskyni og skal ekki með neinum hætti líta á hana sem fjárfestingarráðgjöf. Hún byggir á opinberum upplýsingum sem tiltækar voru er hún var rituð. Helstu heimildir eru m.a. efnahagslegar skýrslur, birt uppgjör og upplýsingar sem hafa verið birtar opinberlega. Skoðanir og spár geta breyst án fyrirvara, t.d. með tilkomu nýrra upplýsinga. Hafa skal í huga að þær upplýsingar sem fram koma í greininni geta verið rangar þrátt fyrir að reynt hafi verið að koma í veg fyrir það. Viðskiptablaðið getur ekki borið ábyrgð á röngum upplýsingum og afleiðingum þeirra.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.