Tveimur dögum fyrir alþingiskosningarnar 2009 lýsti Kolbrún Halldórsdóttir, sem þá var umhverfisráðherra, því yfir í viðtali á Stöð 2, að hún væri andvíg olíuleit á Drekasvæðinu. Hún sagði að olíuleitarútboðið sem þá stóð yfir væri ekki í samræmi við skuldbindingar Íslands í umhverfismálum og stefnu VG um sjálfbæra þróun enda hefðu þingmenn flokksins ekki stutt málið á Alþingi.

Samstundis ætlaði allt um koll að keyra í Vinstrihreyfingunni grænu framboði. Svona lagað mátti umhverfisráðherra flokksins ekki segja, ekki svona stuttu fyrir kosningar.

Kolbrún fékk reiðisímtal frá formanni flokksins, eins og hún lýsti síðar í bók, og flokkurinn sendi frá sér tilkynningu sama kvöld og fréttin birtist. Þar var tekið fram að flokkurinn hafi ekki lagst gegn olíuleit á Drekasvæðinu, þingmenn flokksins hafi stutt málið á sínum tíma en setið hjá við breytingar á lögunum. Síðar sama kvöld sendi svo Kolbrún frá sér yfirlýsingu um að hún hefði lýst efasemdum um olíuleitina vegna þess hvernig staðið var að undirbúningi málsins og tók fram að VG væri ekki á móti olíuleit.

Lokaspretti kosningabaráttunnar varði svo VG í að sannfæra landsmenn um að það að kjósa flokkinn væri öruggasta leiðin til að verja Ísland fyrir alþjóða auðvaldinu og koma í veg fyrir að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu.

Undarlegt sinnuleysi

Eftir kosningar samþykkti ríkisstjórn VG og félaga snarlega að sækja um aðild að ESB, láta skattgreiðendur greiða Icesave-kröfurnar, leyfði NATO að gera loftárásir á Líbíu og ákvað að afhenda vogunarsjóðum bankakerfi landsins. Aftur á móti stóð formaður VG við yfirlýsingar um olíuleit á Drekasvæðinu og staðfesti það með því að undirrita leitarleyfin í eigin persónu við hátíðlega athöfn.

Síðan þá hefur ýmislegt gerst. Búið er að koma í veg fyrir og vinna til baka flest stærstu mistök gömlu VG-stjórnarinnar (þótt ný stjórn flokksins sé langt komin með að skila hluta bankakerfisins aftur til vogunarsjóða með aðstoð Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks). Afrakstur aðgerða sem ráðist var í 2013-2016 skilaði svo miklum efnahagslegum umsnúningi að ráðherrar VG (og að því er virðist Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks) telja nú að það taki því varla að bora eftir olíu og gasi. VG telur að landsmenn hafi það svo gott að flokkurinn geti nú leyft sér að fylgja stefnu sinni í umhverfismálum (=meiri kol, minna gas) og hinir virðast haldnir einhverju undarlegu sinnuleysi.

Gríðarlegir hagsmunir

Leitin á Drekasvæðinu hafði gengið vel. Ljóst er að á svæðinu er að finna olíu og gas og sterkar vísbendingar eru um að það sé í vinnanlegu magni. Á grundvelli þess samþykkti Norska stórþingið, í lok nýliðins árs, að fjórfalda framlög til olíuleitar á Drekasvæðinu.

En svo gerðist eitthvað. Kínverska ríkisolíufélagið, CNOOC, ákvað skyndilega að draga sig út úr leitinni og nýmynduð ríkisstjórn Noregs ákvað að gera slíkt hið sama, að því er virðist á fyrsta ríkisstjórnarfundinum. Auknar fjárveitingar til leitarinnar höfðu verið samþykktar með tveggja atkvæða mun og nýi stjórnarflokkurinn er andvígur olíuleit á Jan Mayen-svæðinu.

Ákvörðun um þátttöku ríkisolíufélaga Kína og Noregs í olíuleit á Drekasvæðinu var í senn pólitísk og strategísk. Frá því að ákvörðunin var tekin hafa þróun markaða og niðurstöður rannsókna ekki gert annað en að styrkja efnahagslegar forsendur verkefnisins. Ákvörðun um að hætta leit er því tekin, að minnsta kosti að hluta, á pólitískum og strategískum forsendum (eins og sjá má af umræðunni í Noregi).

Stjórnvöld í erlendum ríkjum hafa nú tekið ákvörðun sem getur haft gríðarleg áhrif á íslenska hagsmuni, ákvörðun sem er í eðli sínu pólitísk, og hver eru viðbrögð íslenskra stjórnvalda? Þeir vinstri-græningjar sem hafa tjáð sig um málið hafa fagnað þessu mikla óláni. Af Sjálfstæðisflokknum er hins vegar ekkert að frétta. Ráðherrar flokksins virðast ætla að sýna þessu gríðarstóra hagsmunamáli fullkomið fálæti.

Hápólitískt milliríkjamál

Olíu- og gasleit á norðurslóðum er hápólitískt milliríkjamál. Það er skylda stjórnvalda að verja hagsmuni landsins á þessu sviði. Ljóst er að í Noregi telja margir betra að Ísland haldi sig til hlés á norðurslóðum. Þar á bæ hafa menn lengi látið mikil samskipti Íslendinga og Kínverja fara í taugarnar á sér. Það hentar líka Norðmönnum mun betur en Íslendingum að bíða með olíuvinnslu á Jan Mayen-svæðinu. Að undanförnu hefur líka samband Norðmanna og Kínverja stóraukist eftir nokkurra ára illindi.

En hvernig hefur samskiptum Íslands og Kína verið sinnt undanfarin ár? Og hafa menn ekki áhuga á því að láta Norðmenn svara því hvert sé raunverulegt viðhorf þeirra til samstarfs við nágranna sína í vestri? Væri ekki ráð að kanna hvort aukinn áhugi Bandaríkjamanna á norðurslóðum og breytt staða Bretlands geti opnað á nýtt samstarf? Eða er það ætlun íslenskra stjórnvalda að vera bara aðgerðalausir áhorfendur að þróun mála á norðurslóðum og vanrækja þannig grundvallarhagsmuni þjóðarinnar?

Höfundur er þingmaður og formaður Miðflokksins.