Þarf að fórna íslenska villta laxinum til að byggja laxeldi hérlendis? Hinir mætustu menn og minni spámenn fullyrða að slysasleppingar og erfðablöndun muni stórskaða ef ekki útrýma villtum laxastofnum. Eru slíkar fullyrðingar byggðar á vísindalegum staðreyndum eða er hér um að ræða hreina sérhagsmunagæslu og yfirborðsmennsku sem oft einkennir íslenska umræðu?

Þeim sem annt er um staðreyndir og vilja hafa sannleikann að leiðarljósi er ljóst að engar rannsóknir eða heimildir hafa sýnt að villtir laxastofnar hafi misst hæfni til að fjölga sér eða lifa af í villtri náttúru vegna erfðablöndunar. Í Noregi, Skotlandi, Írlandi og öðrum löndum, sem hafa langa sögu í slysasleppingum, hefur enginn laxastofn horfið eða minnkað vegna erfðablöndunar eins og áróðursmeistarar veiðiréttarhafa hér á landi halda iðulega fram á opinberum vettvangi.

Náttúrulegt úrval

Það hefur vissulega verið staðfest að genaflæði getur átt sér stað frá eldislaxi yfir til villtra laxastofna en það segir sig sjálft að gen sem draga úr lífsþrótti eða minnka frjósemi berast ekki milli kynslóða. Eldislax inniheldur öll þau gen sem villtir stofnar hafa. Gen hverfa ekki við kynbætur. Kynbætur hafa aðeins áhrif á breytileika innan einstakra gena. Þegar erfðablöndun greinist eykst erfðabreytileiki, það staðfesta allar rannsóknir. Ratvísi er gott dæmi um erfðafestu í genamengi laxins. Enginn munur er á endurheimtum laxaseiða sem eru afkvæmi eldislaxa í 10 kynslóðir og villtra foreldra. Eldislax er hinsvegar frábrugðinn villtum stofnum að því leyti að hann hefur meiri vaxtargetu, hærri kynþroskaaldur og litla óðalahegðun.

Þessir þættir draga úr hæfni eldislaxa til að lifa af í villtri náttúru, en styrkjast í eldi þegar nóg er af fæðu og afrán er ekki til staðar. Búast má við því að af hverjum 4.000 hrognum muni aðeins einn lax skila sér til baka til hrygningar. Það staðfestirhvað náttúrlegt úrval er sterkur þáttur í afkomu og erfðum laxastofna. Gríðarlegur úrvalsstyrkur (yfir 99,9%) er náttúrulegt ferli sem hefur viðhaldið sérkennum einstakra laxastofna í þúsundir ára þótt 3-5% villtra laxa hrygni ekki í sinni heimaá. Áhrif frá erfðablöndun vegna einstaka tilviljanakenndra slysasleppinga fjara því hratt út, nema framandi erfðaáhrif auki lífsþrótt. Engin staðfest dæmi eru um það.

Er ábyrgðin ljós

Að sjálfsögðu á náttúran að njóta vafans og eru fiskeldismenn mjög meðvitaðir um ábyrgð sína og yrðu fyrstir til að viðurkenna vandann væru líkur til þess að starfsemin ylli umhverfisskaða. Sjálfbær og umhverfisvæn starfsemi er mikilvæg forsenda þess að neytendur séu tilbúnir að greiða hátt markaðsverð. Þó að skaðleg áhrif erfðablöndunar hafi ekki verið staðfest er engu að síður mjög mikilvægt að fyrirbyggja slysasleppingar.

Að frumkvæði LF að kröfur voru hertar

Árið 2014 hafði Landssamband fiskeldisstöðva frumkvæði að því að vinna hófst við endurskoðun á lögum og reglum um fiskeldi með það að markmiði að herða kröfurnar. Nú þurfa fyrirtæki að uppfylla norska staðalinn NS9415, sem hefur skilað miklum árangri til að fyrirbyggja sleppingar í Noregi. Árin 2014-2015 er áætlað að 6.000 eldislaxar hafi leitað í norskar ár á veiðitímabilinu (www.nina.no).

Það eru um 0,002% af fjölda laxa sem haldið er í norskum eldiskvíum. Sé hlutfallið yfirfært til Íslands má búast við að um 400 eldislaxar leiti í íslenskar ár hérlendis séu um 100 þús. tonn af laxi framleidd árlega hér á landi og okkur tækist ekki betur en Norðmönnum að fyrirbyggja strok.

Fjöldi eldislaxa sem reynir hrygningu gæti því verið um 1% af hrygningarstofni íslenska laxins. Þessar tölur miðast við að ekkert veiðiátak færi fram ef grunur um sleppingu vaknaði. Af því sem hér hefur verið dregið fram má ljóst vera að ekki þarf að fórna einum einasta villtum laxastofni til að byggja upp mikilvæg störf við fiskeldi á landsbyggðinni.

Höfundur er sjávarútvegsfræðingur og framkvæmdastjóri Eldis og umhverfis ehf.