Stjórn FHG – Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, hittist fyrir jól og ákvað að setja fókusinn á nokkur brýn mál gagnvart stjórnvöldum. Verkefnin á þeim vettvangi er þríþætt:

  • Skekkjur í rekstrarumhverfi. Ýmis lögleg gististarfsemi, er undanþegin sköttum og skyldum sem við þurfum að greiða s.s. orlofshús, fjallakofar, íbúðaleiga, sumarhúsaleiga, camperbílar, skemmtiferðaskip og nú stefnir í að prestsetur bætist í þennan flokk.
  • Ólögleg og svört starfsemi. Leyfislaus og svört starfsemi í gistiþjónustu er hvergi meiri ef við horfum til þeirra landa sem við miðum okkur við og meðvirkni með ólöglegri gististarfsemi hefur verið ótrúleg hér á landi.
  • Skattamálin. Hugmyndir sem uppi eru um að gera gisti-náttaskattinn að veltuskatti og færa til sveitarfélaga eru mjög hættulegar. Sporin hræða þegar litið er til þróunar annarra skattstofna sveitarfélaganna s.s. fasteignaskattar, fráveitugjalda, innviðagjalda, byggingarréttargjalda og fleira mætti nefna.

Brýnt að leiðrétta skekkjur í rekstrarumhverfi

Landsbyggðin og suðvesturhornið eru nú eins og tveir heimar hvað varðar uppbyggingu í hótel og gistiþjónustu. Stuðla þarf að heilbrigðri atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni frekar en að mæta eftirspurninni eftir gistingu með íbúðaleigu, sumarhúsaleigu, camperbílum, skemmtiferðaskipum. Þetta er lögleg starfsemi sem er annaðhvort undanþegin sköttum eða finnur sér leið framhjá þeim sköttum sem hefðbundin gistiþjónusta greiðir. Nýverið fóru ferðaskrifstofur að bjóða hringferðir um landið þar sem gist er í skipum. Það ásamt camperbílum er dæmi um hvernig markaðurinn bregst við síhækkandi álögum á hefðbundna gistiþjónustu. Þá er íbúða- og sumarhúsaleiga í 90 daga á ári t.d. Airbnb, undanþegin leyfisskyldu, virðisaukaskatti, gistináttaskatti, og greiðir auk þess aðeins 0,18% fasteignaskatt á meðan leyfisskyld starfsemi greiðir næstum 10 sinnum meira eða 1,65% af fasteignamati svo dæmi sé tekið frá Reykjavík.

Brýnt að taka á ólöglegri starfsemi

Svört og leyfislaus starfsemi er eitt stærsta áhyggjuefni rekstraraðila í gistiþjónustu. Það má í raun líta á það sem pólitíska fyrirgreiðslu til svartrar atvinnustarfsemi að hún hafi fengið að vaxa og dafna árum saman án þess stjórnvöld hafi tekið þar fast á málum. Það á engin atvinnugrein að búa við slíkt. T.d. er um helmingur framboðinna herbergja í miðborg Reykjavíkur í íbúðum, sem langflestar tilheyra umfangsmiklu skuggahagkerfi. Engin atvinnugrein býr við jafn harða samkeppni frá svartri starfsemi og gistiþjónustan og rökin fyrir sértækri skattheimtu á þennan hluta atvinnulífsins eru vandfundin.

Hættulegt að breyta gistináttaskatti í veltuskatt og færa til sveitarfélaga

Undanfarin misseri hefur umræða um tekjur sveitarfélaga af ferðaþjónustu verið áberandi. Gríðarlegur þrýstingur er af hálfu sveitarfélaganna að fá til sín gistináttaskattinn, sem nú rennur í ríkissjóð. Meginhluti gistinátta fellur til í Reykjavík og hugmyndir sem uppi eru um að færa hann til sveitarfélaga eru áhyggjuefni og munu ýta enn frekar undir pólariseringuna milli Reykjavíkur og landsbyggðarinnar. Næstum 2/3 hlutar gistinátta falla nú til í Reykjavík og samkvæmt því ætti gistináttaskatturinn að stærstum hluta að renna í borgarsjóð Reykjavíkur. Augljóslega yrði það aldrei ágreiningslaust að flytja þá peninga út á land með gamaldags millifærsluaðgerðum. Markmið okkar hlýtur að vera að fækka ágreiningsefnum, en ekki búa til ný. Hugmyndir um að gera gistináttaskattinn hlutfallslegan vekja miklar áhyggjur innan hótelgeirans. Það er ekkert tilefni til að búa til nýjan veltuskatt á gistiþjónustuna og þær prósentutölur sem viðraðar hafa verið bera vott um algert skilningsleysi á á geiranum. Sporin hræða þegar litið er til þróunar annarra skattstofna sveitarfélaganna. Gistináttaskattur er sértækur skattur sem eykur enn frekar samkeppnisforskot aðila sem eru undanþegnir skattinum svo ekki sé talað um þá sem stunda svarta starfsemi og greiða enga skatta.

Gistingin, helsta skattaandlagið, er aðeins 14% af veltu í ferðaþjónustu

Virðisaukaskattskyld velta í ferðaþjónustu var um 700 milljarðar á nýliðnu ári. Þar af er rekstur gististaða tæpir 100 milljarðar skv. gögnum Hagstofunnar. Velta gistiþjónustunnar er því aðeins um 14% af heildarveltu ferðaþjónustunnar. Engu að síður hefur gistingin verið helst til umræðu þegar kemur að skattlagningu á atvinnugreinina. Skömmu fyrir jól kynnti Stjórnstöð ferðamála skýrslu verkfræðistofunnar Eflu um „Álagsmat umhverfis, innviða, efnahags og samfélags gagnvart fjölda ferðamanna á Íslandi“. Þar kemur fram að að í ágúst á árinu 2017 voru yfir 90 þúsund ferðamenn á landinu á degi hverjum. Sambærileg tala fyrir hörðustu vetrarmánuðina var tæplega 30.000 ferðamenn. Erlendir gestir á Íslandi eru neytendur og greiða neysluskatta. Ætla má að næstu árin verði um 50.000 fleiri skattgreiðendur, að meðaltali, á neytendamarkaði dag hvern, til að greiða:

  • Virðisaukaskatt af neysluvörum, gistingu og þjónustu. Eldsneytisgjöld, sem nema 60% af verði selds eldsneytis á neytendamarkaði
  • Áfengisgjald.
  • Að ógleymdum gistináttaskatti, sem var þrefaldaður á árinu 2017, aðgerð sem ekki sér fyrir endann á.

Auknar tekjur ríkisins af ofangreindri neysluskattheimtu eru tugir milljarða á ári. Með auknum fjölda og verðmætari ferðamönnum aukast tekjur ríkisins sjálfkrafa og fyrir liggur að nettótekjur af ferðamönnum 2017 voru um 60 milljarðar. Erlendir gestir skapa störf og af þeim eru greiddir skattar og skyldur. Þeir efla fjárfestingu, tryggja félagslegan styrk samfélaga og efla búsetu í dreifðum byggðum. Erlendir gestir styðja við umfangsmiklar flugsamgöngur til landsins og ekki síður styðja þeir við uppbyggingu á samgönguleiðum innanlands. Áform eru uppi um frekari vegagjöld, sem ferðamenn munu einnig greiða. Umferð og eftirspurn ferðamanna tryggir verslun og vörudreifingu í dreifbýli. Með öðrum orðum styrkir byggðir landsins, bætir búsetuskilyrði og þjónustu við almenning. Í ljósi þess að gistingin er aðeins 14% af veltu í ferðaþjónustunni, vekur sókn ríkis og sveitarfélaga í frekari skattheimtu af gistingunni, mikla furðu. Einkum ef horft er til afkomu í greininni og þá ekki síst afkomu gististaða úti á landi.

Skatta- og gjaldtökumál í gistiþjónustunni

Stæstu útgjaldaliðir í hótelrekstri eru laun og kostnaður vegna fasteignarekstrar. Gistingin er því mjög viðkvæm fyrir háu tryggingagjaldi, sem er veltuskattur á laun svo og fasteignaskatti, sem víðast er um 1,65% af síhækkandi fasteignamati. Gistináttaskattur var nýverið þrefaldaður og rétt er að halda því til haga að ofan á skattinn er lagður virðisaukaskattur, sem ekki fyrir löngu var hækkaður úr 7 í 11%. Fasteignaskattar skrúfast jafnt og þétt upp og eru tvöfalt hærri en að meðaltali á Norðurlöndunum. Afar hægt gengur að lækka tryggingagjald, sem var hækkað gríðarlega í kjölfar bankahrunsins. Þá eru ný gjöld fundin upp, s.s. byggingaréttargjald og innviðagjald, sem í raun hafa allt yfirbragð skattheimtu og þ.a.l. ólögleg gjaldtaka af hendi sveitarfélaga í ljósi þess að það er eingöngu Alþingi sem hefur skattlagningarheimild á fyrirtæki og almenning. Gistináttaskatturinn eykur mjög á óréttlæti í greininni og það eykur mjög á óvissu til framtíðar ef svo hrapalega tækist til að skatturinn yrði fluttur til sveitarfélaga til frekari þróunar og gerður að veltuskatti. Sporin hræða þegar horft er til þróunar skattstofna sveitarfélaganna, t.d. fasteignaskatta, en þeir hafa tvöfaldast á 20 árum. Þá munu tekjur 12 stærstu sveitarfélaga af fasteignaskatti aukast um 3,5 ma.kr. milli ára ef horft er til álagningar á komandi ári skv. nýútkominni skýrslu S.A. (Tíu staðreyndir um fasteignaskatt) Þróun skattstofna sveitarfélaganna á atvinnulífið, s.s. fasteignaskatta, fráveitugjalda og nú síðast innviðagjalda og byggingaréttargjalda, er með þeim hætti að FHG leggst eindregið gegn því að gistináttaskatturinn verði færður til sveitarfélaga. Sértækir skattar á lítinn hluta atvinnulífsins eru vondir skattar. Dæmi um slíka skatta er gistináttaskattur og bankaskattur. Nú er hafin lækkun á bankaskattinum og einnig á auðlindagjöldum í sjávarútveginum. Það er skýlaus krafa FHG gistináttaskatturinn verði aflagður – enda er þetta sértækur skattur á mjög lítinn hluta atvinnulífsins og skilar ekki miklu í ríkissjóð.

Fimmtíuþúsund nýir skattgreiðendur á degi hverjum

Á það ber að horfa við frekari gjaldtökuhugmyndir, að tekist hefur á fáum áratugum að byggja upp enn eina öfluga stoð undir íslenskt atvinnulíf. Það eru ekki mörg ár síðan að hingað til lands komu aðeins rúmlega 100 þúsund ferðamenn á ári og ferðamannatíminn var tveir mánuðir yfir hásumarið. Nú horfum við til þess að hér verði að meðaltali um 50 þúsund ferðamenn í landinu á degi hverjum.

Megináhersla FHG er að  byggja um heilbrigt rekstrarumhverfi í gistiþjónustu, en til þess að svo megi verða þurfa allir að sitja við sama borð. Sú leið sem FHG leggur til er að stjórnvöld auki tekjur sínar með því að leiðrétta skekkjur í rekstrarumhverfi greinarinnar, innheimta skatta og skyldur af leyfislausri starfsemi og vinni að frekari uppbyggingu í ferðaþjónustu í góðri sátt við atvinnugreinina. Ýmis áform eru uppi sem gætu aukið tekjur af ferðamönnum s.s. innheimta eðlilegra þjónustugjalda. Einnig hafa veggjöld verið nefnd til sögunnar. Sjálfbær uppbygging mun stuðla að auknu umfangi greinarinnar, sem aftur mun skila miklum tekjum í ríkissjóð til langrar framtíðar.

Höfundur er formaður FHG – Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu.