*

miðvikudagur, 22. ágúst 2018
Ólafur Ásgeirsson
7. október 2017 13:43

Fleiri fyrirtæki geta notið góðs af skuldabréfamarkaði

Ólafur Ásgeirsson fjallar um fjármögnun fyrirtækja á skuldabréfamarkaði.

Innlendur skuldabréfamarkaður með fyrirtækjabréf er vannýttur. Mun fleiri fyrirtæki en eru þar nú eiga fullt erindi inn á þennan markað. Tækifæri og fjárhagslegur ávinningur sem þar getur leynst rennur því þeim fyrirtækjum úr greipum. Þetta þyrfti helst að breytast. Fyrst og fremst er það á ábyrgð stjórnenda fyrirtækjanna. Innlent lánshæfismat, sem er ein af grunnstoðum virks skuldabréfamarkaðs, er gott fyrsta skref í að meta möguleika og ávinning.

Þau ágætu samtök World Economic Forum hvetja lönd með óvirkan innlendan skuldabréfamarkað með fyrirtækjabréf að taka sér tak og vinna að því að bæta hann og efla. Annars takmarki það getu fyrirtækja til fjármögnunar og geti leitt til minni hagsældar. Íslenski skuldabréfamarkaðurinn með fyrirtækjabréf fellur væntanlega þar undir þó svo að samtökin horfi einkum til vanþróaðri ríkja í grein sinni.

Eitt er a.m.k. víst; hægt er að styrkja þennan markað og efla þar sem stærð hans er aðeins um 24% af landsframleiðslu. Það er mjög lágt hlutfall og þyrfti að vera mun nær 70-100% til að vera samanburðarhæft við önnur vestræn lönd. Skuldabréfamarkaðurinn er ekki bara fyrir stærstu fyrirtækin heldur almenn fyrirtæki líka sem eru traust og að fjármagna sig í hærri upphæðum. Bankarnir hafa staðð sig vel í að þjónusta og fjármagna þessi fyrirtæki en skuldabréfamarkaðurinn er jafn mikilvægur eftir sem áður og góður stuðningur við bankafjármögnun og langtíma bankatengsl.

Vegna þeirrar sérstöðu sem skuldabréfamarkaðurinn getur haft upp á að bjóða ættu stærri fyrirtæki að vera vel vakandi fyrir þeim tækifærum sem þar gefast til hagkvæmari kjara, lengri fjármögnunar og áhættudreifingar, oftast í samráði við bankann sinn eða ráðgjafa. Góð fjármálastjórn við fjármögnun byggir á þessu. Það sýnir jafnframt traustleikamerki að geta fjármagnað sig á skuldabréfamarkaði. Þessi markaður þarf því að eflast með því að fleiri þátttakendur stigi inn á hann.

Einhverjir velja að leita strax eftir fjármögnun meðan aðrir kjósa frekar að fara hægar í sakirnar og undirbúa farveginn vel. Þær leiðir sem fyrirtæki geta valið um við fjármögnun á skuldabréfamarkaði eru einkafjármögnun (e. private placement) sem er ekki skráð á kauphöll og er hugsuð fyrir smærri útgáfur. Þegar útgáfur fara stækkandi er betra að skrá þær á markaði (e. public offering). Hægt er að skrá þær á First North markaðinn eða á Aðallistann.

Skráning á First North er einfaldari og ódýrari en á Aðallistanum. Ef upphæðir eru orðnar mjög háar er Aðallistinn yfirleitt vænlegasti kosturinn. Fyrir fyrirtæki sem vilja kanna þessa fjármögnunarleið betur er m.a. hægt að byrja á að fá sér innlent lánshæfismat sem hefur tengingu við markaðskjör. Reitun, lánshæfismatsfyrirtæki, útbýr slík lánshæfismöt fyrir fyrirtæki og hefur gert undanfarin ár. Niðurstaða lánshæfismats er í formi skýrslu og einkunnar.

Einkunn gefur vísbendingu um líkleg vaxtakjör á markaði og hversu gott aðgengi líklegt sé að viðkomandi aðili hafi að markaðnum. Lánshæfismat er þannig einföld og þægileg leið til að meta þennan kost og sjá líklegan samanburð við aðra fjármögnun auk þess sem lánshæfismat nýtist til að sjá þá þætti sem bæta lánshæfið og öfugt. IFS Greining nýtir einkunnaskala Reitunar til að meta vaxtaálag fyrir hvern flokk og mismunandi tímalengdir eftir markaðsþróun hverju sinni.

Myndin sýnir mat IFS á vaxtaálagi út frá einkunnaskala Reitunar og mismunandi meðallíftíma. Þetta er mat á álagi sem er í gildi núna en getur tekið breytingum bæði til hækkunar og lækkunar eftir því hvernig innlendir og erlendir lánamarkaðir þróast. Þegar talað er um innlendan einkunnaskala er búið að áhættumeta lántakendur út frá besta lántakanum, ríkissjóði, og bæta i. fyrir framan hefðbundna einkunnaflokkun.

Besta einkunnin er i.AAA en einkunnir þar fyrir neðan sýna stigvaxandi áhættu sem þarf að greiða fyrir með hækkandi vaxtaálagi. Sem dæmi, i.A3 einkunn með þriggja ára meðallíftíma er með 1,1-1,4% vaxtaálagi skv. töflu og mv. ríkisvexti nú væru því verðtryggðir vextir samtals líklega nálægt 3,5-3,8% á skuldabréfamarkaðnum fyrir þann útgefanda.

Höfundur er framkvæmdastjóri IFS Greiningar.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.