Meðal helstu gagnrýni á Áramótaskaupið, var að þar hefði verið hent gaman að Sigurði Einarssyni, fyrrverandi Kaupþingsmanni, með því að nota búta úr viðtali, sem tekið var við hann skömmu eftir dómsuppkvaðningu, þar sem hann var illa fyrir kallaður. Þessi notkun á viðtalinu í Skaupinu var kannski kvikindisleg, jafnvel lágkúrleg, en það þýðir samt ekki að það sé óleyfilegt að gera sér mat úr viðtölum við dæmda menn eða gera gys að þeim. Menn verða ekki stikkfrí við það að hljóta dóm.

★ ★ ★

Annað viðtal við Sigurð Einarsson vakti nokkra geðshræringu í vikunni. Þorbjörn Þórðarson, fréttamaður á Stöð 2, hitti hann og tvo aðra efnahagsbrotamenn á Kvíabryggju í fyrradag, en við­talið var sýnt í þættinum Ísland í dag þá um kvöldið.

Í netheimum blöskraði sumum að þessum mönnum leyfðist að kvarta undan hlutskipti sínu, að Þorbjörn hefði verið alltof stimamjúkur við þá félaga, ekki þjarmað að þeim, spurt út í brot þeirra, krafist iðrunar og yfirbótar o.s.frv. Sumir gerðu því jafnvel skóna að hann væri þátttakandi í einhverju almannatengslaátaki á vegum fanganna.

★ ★ ★

Nú er það rétt athugað, að viðtal Þorbjarnar einkenndist ekki af atgangshörku. Þá er hins vegar rétt að hafa í huga að þar var ekki um fréttaviðtal að ræða, heldur viðtalið í magasínþætti, öðrum þræði á mannlegu nótunum. Það er vandséð hvaða tilgangi spurningar um sakamál þeirra félaga hefðu þjónað í viðtalinu, Hæstiréttur hefur fellt sinn dóm í þeim og ekki um fleira að ræða hvað það áhrærir. Tilefni viðtalsins var hins vegar kvörtun þeirra félaga undan fangelsismálastjóra, sem umboðsmaður Alþingis hefur tekið til athugunar og sjálfsagt er að fjalla um.

Þetta er engan veginn fyrsta fangaviðtalið, þar sem brot við­ komandi eru látin liggja milli hluta, og það hefði frómt frá sagt verið einkennilegt ef Þorbjörn hefði farið að vaða í fangana af fullri hörku vegna þeirra brota, sem þeir eru að taka út dóm fyrir. Nú er ekki að efa að fangarnir vilja reyna að rétta hlut sinn og telja svona almannatengslaæfingu til þess fallna; annars hefðu þeir væntanlega hafnað viðtalsbeiðninni. En það er fráleitt að ætla Þorbirni að vera einhver leiksoppur eða þátttakandi í því.

Þarna var einfaldlega um að ræða nokkuð hefðbundið tilfinningaklám, líkt og er á boðstólum í Kastljósi og Íslandi í dag oft í viku. Menn fengu ekki flog vegna þess að Tobbi hafi staðið sig svona eða hinsegin, heldur vegna þess hverjir viðmælendurnir voru.

★ ★ ★

Ríkisútvarpið sagði í gær frétt af því að maður, sem sætir rannsókn vegna fjárdráttar, hefði verið ráð­ inn til annars fyrirtækis í svipað starf. Forstjóri þess var spurður út í ráðninguna, umsvif þess rakin í nokkrum smáatriðum og þess sérstaklega getið að lífeyrissjóðir væru meðal hluthafa.

Það er eitthvað annarlegt við þennan fréttaflutning. Manninum er ljóslega ætluð sök og um leið látið að því liggja að óeðlilegt sé að hann fái nokkurs staðar vinnu, en jafnframt er fyrirtækinu og eigendum þess ætluð sérstök smán fyrir vikið.

★ ★ ★

Að enn einu lögbrotinu: Hér var í síðustu viku minnst á hið fordæmalausa Stundarskaup Ríkis­útvarpsins á gamlársdag, þar sem pólitísk ádeila, persónuníð og innræting átti greiða leið í þátt fyrir börn. Í gær birti Skarphéð­inn Guðmundsson, dagskrárstjóri Ríkissjónvarpsins, loks „áréttingu“ vegna þessa:

Í Stundarskaupinu 2015 var atriði sem er ekki í samræmi við þá ritstjórnarlínu sem við höfum fylgt varðandi barna- og fjölskylduefni. Full ástæða er til að biðjast afsökunar á því. Ég og umsjónarmenn Stundarinnar okkar erum sammála um að barnaefni er ekki og á ekki að vera vettvangur pólitískrar ádeilu og það hefur ekki breyst.

Atarna er skrýtin nóta. Þar er látið eins og sjálft atriðið hafi einhvernveginn skrikað á ritstjórnarlínunni og afsökunar beðist á því. Þarna var hins vegar um skýlaust lögbrot að ræða, því Ríkis­útvarpinu eru lagðar sérstakar skyldur á herðar um að gæta „fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð“. Ekki þarf að orðlengja að því ber að auðsýna sérstaka aðgæslu og nærfærni þegar barnaefni á í hlut.

Getur verið að starfsmenn Ríkisútvarpsins geti brotið lög um stofnunina án þess að það hafi nokkrar afleiðingar aðrar en að þeir þurfi að birta afsökunarbeiðni þar sem þeir segjast vera sammála um að það megi ekki gera það sem þeir gerðu?!