Áhersla á kvenréttindi tröllríður nú samfélaginu. Stjórnmál, fjölmiðlar, vöruumbúðir og sparibaukar – ekkert virðist vera undanskilið í umræðunni. Stór hluti hennar snýst um hausatalningu á Alþingi, í ríkisstjórn, fjölmiðlum, pallborðum, stjórnum, stjórnunarstöðum og víðar. Lykilatriði virðist vera að það séu að minnsta kosti jafnmargar konur í valdastöðum og karlar og að þær séu að minnsta kosti með jafn há laun. Það mætti halda að hérlendis ríkti ófremdarástand. Þó sýna úttektir World Economic Forum að jafnrétti kynjanna sé mest hér, og þannig hefur það verið í mörg ár.

En er ekkert annað sem aðgreinir kynin? Á vefnum vísir. is var nýlega vakin athygli á tölum um stráka og unga menn og stöðu þeirra í samfélaginu. Rúmlega þrisvar sinnum fleiri karlar en konur fremja sjálfsvíg, tvöfalt fleiri konur en karlar útskrifast úr Há­ skóla Íslands, 50% fleiri strákar en stelpur falla úr framhaldsskóla, samkvæmt tölum Reykjavíkurborgar geta 12% færri drengir en stúlkur lesið sér til gagns, 15 sinnum fleiri karlar en konur eru í fangelsi og samkvæmt rannsókn gerðri við Stokkhólmsháskóla fá þeir þyngri refsingar en konur fyrir sömu brot.

Heill iðnaður – stofnanir, félög og umræðan á netinu – hverfist um að konur eigi að njóta meiri valda og efnislegra gæða. Engum iðnaði er hins vegar til að dreifa þegar kemur að þeim atriðum sem ég taldi upp hér að ofan, og snúa þau þó öll að raunverulegum lífsgæðum. Af þessum tölum má draga þá ályktun að lífsgæði drengja og ungra manna séu að mörgu leyti lakari en stúlkna og ungra kvenna. Er ekki kominn tími til að hætta hausatalningum og launareikningum og fara að huga að því hvernig við getum raunverulega bætt lífsgæði alls ungs fólks, bæði karla og kvenna?