Einhverjum hefur verið tíðrætt um það undanfarið að stefna Sjálfstæðisflokksins um að taka vel á móti innflytjendum og styðja við flóttamenn, sem samþykkt var á landsfundi í síðasta mánuði, sé vinstristefna. Það er tóm þvæla.

Einstaklingshyggja er órjúfanlegur þáttur af nútímalegri hægristefnu. Allir einstaklingar eiga rétt á því að vera dæmdir af verkum sínum en ekki þeim þjóðfélagshópum sem þeir tilheyra.

Hræðsluáróður um útlendinga byggir á þeirri misráðnu hugmynd að allir útlendingar séu verri en allir Íslendingar, bara vegna þess að þeir eru útlendingar.

Staðreyndin er auðvitað sú að það er misjafn sauður í mörgu fé, bæði Íslendingar og útlendingar geta verið afbrotamenn, með smitsjúkdóma o.s.frv. Heildarhyggjur eins og útlendingahatur eiga mun meira skylt við kommúnisma heldur en hægristefnu.

Þá er mikilvægt að hafa hugfast að samkvæmt skilgreiningu eru fordómar ekki skoðanir eins og hverjar aðrar, heldur fyrirfram ákveðnar hugmyndir sem byggja hvorki á rökum né reynslu.

Sjálfstæðisflokkurinn spannar ansi vítt svið, allan hægri vænginn og hluta miðjunnar. Flokksmenn þurfa því að geta umborið ýmsar ólíkar skoðanir og haft þolinmæði og borið virðingu fyrir þeim.

Það sama verður ekki sagt um fordóma. Það er engin þörf á því að umbera þá eða bera virðingu fyrir þeim. Þeir eru mun betur geymdir annars staðar en í Sjálfstæðisflokknum.

Sjálfstæðisflokkurinn undirstrikaði það á nýliðnum landsfundi að hann er nútímalegur, víðsýnn og frjálslyndur flokkur. Auk þess að vilja taka vel á móti flóttamönnum þá vill hann lækka kosningaaldur, veita fólki frelsi til að heita það sem það vill, aðskilja ríki og kirkju, leyfa sölu á áfengi í verslunum og afglæpavæða neytendaskammta á fíkniefnum. Hann er að svara kalli nýrrar, víðsýnnar og frjálslyndrar kynslóðar Íslendinga.