Um heim allan vex þrýstingur á raunverulegar umbætur til kjarabóta og jöfnunar fyrir vinnandi fólk. Á nýafstöðnu þingi ITUC (Alþjóðasamband verkalýðsfélaga) kom fram að 80% af þeim arði sem vinnandi fólk skapar í heiminum fara beint í vasa 10% skráðra fyrirtækja. Á sama tíma eru sum stórfyrirtæki að efast um réttindi fólks til að stofna og taka þátt í starfi stéttarfélaga og beita verkfallsvopninu en þetta tvennt er hinn heilagi réttur vinnandi fólks og býr til möguleika þess að berjast fyrir bættum kjörum. Meðal þessara fyrirtækja eru Ryanair, Amazon, Samsung og Uber. Sem sagt fyrirtæki sem við könnumst við og eigum í viðskiptum við. Marriott hótelkeðjan sem byggir nú hótel við Hörpu hefur aukið hagnað sinn um 279% síðustu tíu ár en á sama tíma hefur starfsfólk þess í Bandaríkjunum einungis fengið 7% launahækkun. Auk þess vita starfsmenn hótelkeðjunnar aldrei fyrirfram hvernig vaktaskipulagið lítur út eða hvenær þeir fá frídag. Það er því ekki að undra að fólk krefjist róttækra breytinga.

Sú nýfrjálshyggja sem hefur tröllriðið heimsbyggðinni síðustu áratugi hefur gengið sér til húðar og almenningur krefst þess að fá hlutdeild í arðinum. Með auknum viðskiptum landa á milli verður ábyrgðin okkar líka alþjóðleg. Það er merkilegt að heyra sömu kröfur verkalýðshreyfingarinnar enduróma í öllum heimsálfum. Kröfur um að stöðva einkavæðingu velferðarkerfa, kröfur um styttingu vinnuvikunnar, sanngjarnara skattkerfi og alheimsskatt á fjármagn. Þá óttast margir að loftslagsbreytingar og tækniframfarir muni auka ójöfnuð en ekki minnka hann. Krafan um hækkun lágmarkslauna er svo auðvitað hornsteinninn en þess má geta að einn af hverjum sex sem starfa á hinum evrópska vinnumarkaði er undir fátæktarmörkum, sem sagt vinnur fulla vinnu en nær ekki að framfleyta sér.

Birtingamyndir misskiptingar geta verið margar. Hér á landi hefur húsnæðismarkaðurinn fengið að þróast í þá átt að það skilur á milli feigs og ófeigs hvort þú náðir inn á markaðinn á réttum tímapunkti eða ert ofurseldur leigusölum sem innheimta nær öll launin þín. Þau störf sem eru hvað þyngst í okkar samfélagi eru verðlögð lægst og því er heilsa láglaunafólks í hættu vegna álags og fjárhagsáhyggja. Fólki af erlendum uppruna er haldið á lægstu laununum og jafnvel farið undir lögbundna kjarasamninga en slíkt nefnist á íslensku launaþjófnaður. Velferðarkerfið hefur látið stórlega á sjá síðustu áratugi og það er í dag fjárhagslega íþyngjandi að veikjast eða bara halda heilsu með því að fara í reglulegt eftirlit til lækna eða tannlækna.

Við búum betur en flestar þjóðir þar sem við erum með kjarasamninga sem eru ígildi laga. Það er bannað að bjóða lakari kjör en samið er um í kjarasamningum á hverjum tíma. Auk þess erum við með eina sterkustu verkalýðshreyfingu heims ef miðað er við félagsaðild og mikilvægustu innviðir samfélagsins eru í sameiginlegri eigu okkar allra. Við höfum því gott tækifæri til að vera fyrirmyndarland í jöfnuði, jafnrétti og sanngirni. Það er því grátlegt að við leyfum því að gerast að fólk hafi ekki í sig og á hvort sem það er innan eða utan vinnuarkaðar.

Besta leiðin til að rétta kjör fólks og jafna þau er að breyta skattkerfinu. Að mínu mati þarf kerfið ekki að vera einfalt en það þarf að virka bæði sem tekjuöflunartæki og jöfnunartæki. Alþýðusambandið hefur með óyggjandi hætti sýnt fram á að skattar hafi hækkað hjá lægst launaða fólkinu en lækkað hjá þeim sem hæstar hafa tekjurnar ef litið er aftur um 30 ár. Þetta þarf að leiðrétta. Það er líka algerlega óásættanlegt að ákveðinn hópur í samfélaginu sem rekur sitt eigið fyrirtæki og skammtar sér fjármagnstekjur í hærra hlutfalli en laun, geti fengið verulegan skattafrádrátt þar sem fjármagnsskattur er lægri en tekjuskattur. Það má enginn vera stikkfrí þegar kemur að því að greiða í sameiginlega sjóði.

Mitt mat er að veturinn framundan ráðist af því hvort stjórnvöld komi með aðgerðir sem um munar í skatta- og húsnæðismálum. Nú þegar er húsnæðishópur á vegum stjórnvalda að störfum sem skilar af sér í janúar en skattamálin standa útaf. Þessi tvö mál munu skipta sköpum fyrir jöfnuð, jafnrétti og sanngirni. Það er stjórnvalda ekki síður en atvinnurekenda að mæta miklum væntingum og kröfum um raunverulegar breytingar.

Höfundur er forseti ASÍ .