*

mánudagur, 19. nóvember 2018
Örn Arnarson
24. nóvember 2017 15:46

Móðuharðindi af mannavöldum

Heilfrystir túristar eru svarið.

Lýðheilsu landsins er ógnað og það sama gildir um heilsu búfjárstofna. Við stöndum frammi fyrir einhverskonar Móðuharðindum af mannavöldum.

Þetta eru skilaboðin sem borist hafa frá hagsmunagæslumönnum bænda í fjölmiðlum eftir úrskurð EFTA-dómstólsins um að íslenskum yfirvöldum væri óheimilt að banna innflutning á fersku kjöti og eggjum og afurðum úr ógerilsneyddri mjólk frá Evrópu til Íslands.

Þar sem undirritaður er mikill áhugamaður um ferskar erlendar matvörur sem alla jafna taka þeim íslensku fram í gæðum varð hann skelkaður þegar hann heyrði þessa dómsdagsspádóma yfir heilsu manna og málleysingja ef þessum úrskurði yrði fylgt.

En við nánari skoðun kom í ljós að vissulega getur heilsu manna og búfénaðar stafað hættu af innfluttu kjöti. En sérfræðingar telja mestu hættuna í þeim efnum stafa af ferðamönnum sem eru fluttir hingað til landsins á fæti í umtalsverðu magni en ekki erlendu kjöti sem stjórnvöld munu án efa tolla áfram út af markaðnum þó ekki verði skyldað lengur að eyðileggja það með frystingu áður en það er selt hérlendis. Enginn hefur talað um nauðsyn frystingu ferðamanna í þessu samhengi þó svo að það bjóði vissulega upp á áhugaverðar lausnir þegar kemur að dreifingu þeirra um landið.

Hér á landi koma svo farfuglar sem virðast í flestum tilfellum eiga í nánu samneyti við flóru og fánu þessa lands meðan á dvöl þeirra stendur. Það má líka benda á að það fóður og áburður sem er notað í landbúnaði er einnig flutt til landsins.

Á morgun efna Bændasamtökin og Landbúnaðarháskólinn til fundar undir yfirskriftinni: Hvernig viltu hafa kjötið þitt? Þeirra spurningu er auðsvarað: ferskt, vel verkað og gott. Það þýðir í flestum tilfellum erlent. Íslenskir bændur eigi að snúa sér að þeirri framleiðslu sem þeirra kunna að vera samkeppnishæfir í.

Höfundur er sérfræðingur hjá Samtökum fjármálafyrirtækja. 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.