Píratar stóðu fyrir blaðamannafundi um síðustu helgi þar sem þeir boðuðu til formlegra viðræðna við ákveðna stjórnmálaflokka um samstarf eftir kosningar. Forsvarsmenn flokksins útilokuðu þar stjórnarsamstarf með Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki, en sögðu að erindi um viðræður hefði verið sent formönnum Viðreisnar, Samfylkingar, Vinstri-grænna, Bjartrar framtíðar og Flokks fólksins.

Píratar eru samkvæmt nýjustu könnunum næststærsti flokkur landsins og eru með litlu minna fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn, sem mælist stærstur í augnablikinu. Svo mikil ferð hefur hins vegar verið á fylginu síðustu vikur að þessi staða gæti auðveldlega breyst á skömmum tíma.

Píratar hafa lengi verið nokkuð óskrifað blað og hafa virst gera sér far um að laða að sér bæði hægri- og vinstrisinnaða kjósendur. Mikil breyting hefur hins vegar orðið á þessu síðustu mánuði og eftir að Helgi Hrafn Gunnarsson varð undir í valdabaráttu við Birgittu Jónsdóttur hefur gríman fallið af flokknum. Margir frambjóðendur flokksins gætu vel átt heima á lista Vinstrigrænna og baráttumál Pírata eru vel til vinstri við miðjuna í íslenskum stjórnmálum.

Yfirlýsing forsvarsmanna flokksins um helgina tekur af allan vafa um það hvaða vali kjósendur standa frammi fyrir í kosningunum nú. Sjálfstæðisflokkurinn er hvergi nærri fullkominn, frekar en nokkur stjórnmálaflokkur. Leiðtogar flokksins hafa stigið feilspor í stjórnarsamstarfinu við Framsóknarflokkinn og liggur beinast við að nefna þar stuðning við leiðréttinguna svokölluðu, búvörusamninginn og húsnæðisfrumvörp Eyglóar Harðardóttur.

Viðreisn hefur náð markverðum árangri í könnunum og hefur höfðað til þeirra sem staðsetja sig hægra megin við miðju en geta ekki af ýmsum ástæðum hugsað sér að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Ummæli Benedikts Jóhannessonar, formanns Viðreisnar, í viðtali í Harmageddon á þriðjudag, um að hann útiloki stjórnarmyndun með Framsókn og Sjálfstæðisflokki vekja hins vegar upp spurningar. Hann hefur síðan sagt að hann hafi verið að meina það að Viðreisn myndi ekki verða þriðja hjólið undir núverandi ríkisstjórn, en lagði um leið áherslu á þau mál sem aðskilja Viðreisn og Sjálfstæðisflokk. Þetta hlýtur að minnka líkurnar á því að Viðreisn myndi hægristjórn með Sjálfstæðisflokki.

Atkvæði greitt Pírötum er greinilega atkvæði greitt vinstristjórn, því ekki eru þeir að fara að mynda stjórn með Sjálfstæðisflokknum. Viðreisn væri vissulega ákveðið mótvægi í slíkri vinstristjórn, en erfitt er að sjá annað en að hægristefna Viðreisnar drukkni í slíku samstarfi.

Þeir sem vilja sjá hægristjórn eftir komandi kosningar virðast því í raun vera í sömu stöðu og þeir hafa verið um áratugaskeið. Þeir þurfa að greiða Sjálfstæðisflokknum atkvæði sitt. Í raun virðist það sama eiga við um Viðreisn og Pírata, sem er miður, því innreið annars hægriflokks ætti að óbreyttu að vera fagnaðarefni, en er það ekki ef flokkurinn vill frekar vinna með vinstriflokkunum.