„Sem betur fer hafa harkaleg viðbrögð, meðal annars Félags íslenskra bifreiðaeigenda, ekki síst þess og það á þakkir skildar fyrir þau, sem og almennings, fjölmiðla og stjórnmálamanna leitt til þess að stjórnendur félaganna hafa nú að minnsta kosti í tveimur tilvikum ákveðið að endurskoða tillögur sínar ..." Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi fjármálaráðherra, í umræðum um arðgreiðslur tryggingafélaganna á Alþingi fyrir viku.

Satt að segja kipptist ég við í sófanum þegar ég horfði á þetta ræðubrot í fréttum Sjónvarpsins um kvöldið. Nú hugsa vafalaust einhverjir, hvers vegna? Jú, vegna þess að Steingrímur J. nefndi fjölmiðlana sérstaklega þegar hann taldi upp þá aðila sem brugðist hefðu harkalega við arðgreiðslutíðindunum.

Fjölmiðlar eiga ekki að vera í einhverju liði, jafnvel þó meirihluti þjóðarinnar sé í því liði og blaðamönnum blöskri eitthvað. Þetta er grundvallaratriði. Sannleikurinn er sá að það eru tvær hliðar á þessu máli eins og öðrum málum. Aftur á móti féllu flestir fjölmiðlar í þá gryfju að greina nánast eingöngu frá annarri hliðinni. Þess vegna upplifði Steingrímur J. það sem svo að fjölmiðlar hefðu, ásamt hagsmunafélagi bifreiðaeigenda, barist gegn þessum arðgreiðslum.

Sannast sagna finnst mér þetta grafalvarlegt mál. Fjölmiðlar, sem vilja láta taka sig alvarlega, leita sannleikans. Það er þeirra mikilvægasta hlutverk. Ef þeir gera það þá komast þeir ekki hjá því skoða málin frá mismunandi hliðum. Fjölmiðlafólk má alveg hafa sína skoðun en fréttaflutningur á ekki að endurspegla hana. Það er hægt að skrifa pistil eins og þennan til að viðra skoðanir.

Það er ekki eins og tryggingafélögin séu félög, sem birti samandreginn ársreikning og séu að reyna að fela eitthvað. Þau geta það ekki. Þetta eru skráð félög sem birta mjög ítarlega ársreikninga. Allt er uppi á borðinu. Flestir kusu hins vegar að hunsa þær upplýsingar og fáar tilraunir voru gerðar til að leita skýringa á því hvers vegna verið að væri að greiða svo háar arðgreiðslur og hvort innistæða væri fyrir þeim.

Kolrangar fréttir um danska tryggingafélagið Tryg skekktu síðan alla umræðu. Að minnsta kosti tveir fjölmiðlar birtu fréttir um að félagið hefði látið arðgreiðslur renna til viðskiptavina þegar reyndin var sú að arðurinn rann til hluthafa. Einn stór hluthafi í Tryg lét síðan arðinn renna til sinna eiganda svona svipað og ef lífeyrissjóðirnir hefðu látið þá 3,6 milljarða, sem þeir áttu að fá frá íslensku tryggingafélögunum, renna til sjóðfélaga.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá tengist þetta nýja og gamla Íslandi. Fjölmiðlafólk er svolítið viðkvæmt fyrir þessari umræðu eftir útreiðina sem það fékk í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Við megum hins vegar ekki vera svo viðkvæm að við, líkt og pólitíkusar, stökkvum út í popúlísku laugina án þess að hugsa.