Fréttir vikunnar voru að nokkru leyti lagðar undir réttarhaldið yfir Thomasi Möller Olsen, sem ákærður er fyrir að vera valdur að dauða Birnu Brjánsdóttur í janúar síð­ astliðnum. Ýmsir, þar á meðal nákomnir ættingjar Birnu, fundu að því að fréttaflutningurinn úr réttarhaldinu hafi um margt verið allt of nákvæmur, einkum er varðaði lýsingar á áverkum.

Þarna er fjölmiðlum ljóslega nokkur vandi á höndum. Auðvitað ber þeim að auðsýna tillitssemi og smekkvísi í fréttaflutningi, eftir því sem við verður komið, og siðareglur bjóða blaðamönnum að þeir forðist allt, sem valdið getur saklausu fólki, eða fólki sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka.

Eftir sem áður verða þeir að segja fréttirnar og í morðmáli af þessu tagi fer ekki hjá því að sumar frásagnir verði óþægilegar, jafnvel hryllilegar. Ekki vegna þess að fjölmiðlarnir leggi áherslu á það eða vilji velta sér upp úr því, heldur vegna þess að málin eru þannig vaxin. Frá þeim atvikalýsingum þarf að greina og það þarf að segja frá vitnisburði bæði sakbornings og vitna.

Ekki aðeins vegna þess að almenningur eigi rétt á að vita hið rétta um þessi mál, heldur einnig vegna þess að það er nauðsynlegt til þess að réttlætið nái fram að ganga, að allur almenningur sjái að það nái fram að ganga og geti lagt mat á það.

Vissulega má tína til eitt og annað í fréttaflutningi fjölmiðla af réttarhaldinu, sem betur hefði mátt fara. En í stórum dráttum hafa fjölmiðlar staðið sig eins vel og ætlast má til. Þær frásagnir og upprifjun geta ekki annað en komið við þá, sem sárast eiga um að binda. Það má hins vegar ekki verða til þess að fjölmiðlar sýni svo mikla tillitssemi við nákomna, að þeir segi ekki fréttir. Það á við um viðkvæm mál sem önnur.

***

Fréttablaðið greip til óvenjulegs ráðs við fréttaflutning úr dómssalnum. Það var að senda teiknarann snjalla, Halldór Baldursson, til þess að draga upp myndir úr réttarhaldinu, en þar eru hefð­ bundnar myndatökur ekki leyfð­ ar. Þetta er algengt erlendis, en nánast óþekkt hér. Vel gert!

***

Sagt var frá því í fréttum að fjárframlög til stjórnmálaflokksins Viðreisnar hefðu tæplega verið í góðu samræmi við anda ef ekki bókstaf laga um fjármál stjórnmálaflokka.

Samt sem áður var eins og flestir miðlar væru hálffeimnir við málið og sérstaklega kom rósemi Ríkisútvarpsins á óvart. Þar var t.d. birt viðtal við Svein Arason ríkisendurskoðanda, sem hafði það helst að segja að lögin væru voða flókin og kannski þyrfti að skýra þau betur fyrir flokkunum. Um það var ekkert spurt nánar, þó fyrir því sé nú frekar einhlítt dómafordæmi að ókunnugleiki um lög eða mögulegur óskýrleiki þeirra dregur ekki úr skyldu manna til þess að fara að lögum eða ábyrgð fyrir dómstólum.

Látum það þó liggja milli hluta, fjölmiðlar eiga vafalaust eftir að ganga nánar eftir slíku næstu daga. En menn geta samt spurt sig þeirrar spurningar hvort Ríkisútvarpið hefði verið svona pollrólegt ef komið hefði á daginn að einhver kaupfélagsstjórinn hefði dælt peningum í Framsóknarflokkinn kortéri fyrir kosningar undir ýmsum aðskiljanlegum kennitölum í hans fórum.

***

Það var sagt frá því í vikunni að siðanefnd Blaðamannafélags Íslands hefði vísað frá kæru fyrirlesarans Roberts Spencers gegn Sigríði Hagalín Björnsdóttur á Ríkisútvarpinu vegna viðtals sem Sigríður tók við hann. Kærunni var vísað frá þar sem hún barst of seint eða þremur mánuðum eftir að viðtalið var sent út.

Gott og vel, það kann að vera rétt afgreiðsla á slíkri kæru þó að óneitanlega sé fyrningarfresturinn skammur. Hitt er verra að fjölmiðlarýnir fékk hvergi séð fyrir hvern þremilinn Spencer kærði Sigríði, þó lesa mætti á ruv. is talsvert mál um umrætt viðtal og skoðanir Spencers á íslenskum stjórnvöldum.

***

Hér var minnst á mál vegna uppreistar æru og fleira á dögunum. Þá fór hins vegar fram hjá fjölmiðlarýni, að hans gamli kollega Magnús Halldórsson á Kjarnanum birti áskorun á Facebook til nefndarmanna í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, að þeir myndu leka til sín gögnum varðandi uppreistina.

Auðvitað var þetta aðallega markaðsinnlegg hjá Magga, honum hefði auðvitað veist árangursríkara að senda nefndarmönnum beiðni um slíkt í trúnaði. Umhugsunarefni samt. Ekki síst þegar haft er í huga hvað menn voru heitir um árið yfir því að gögnum væri lekið úr stjórnsýslunni um hælisleitanda, án þess að þau mál séu á nokkurn hátt samanburðarhæf.