Í síðasta tölublaði Eftir vinnu sem kom út 30. mars var viðtal við Sunnevu Weisshappel þar sem hún ræddi um líf sitt og listina.

Viðtalið birtist hér í heild sinni

Innri þörf sem þú getur ekki stjórnað

Sunneva Ása Weisshappel er myndlistamaður sem hefur vakið mikla athygli fyrir verk sín en hún vinnur þvert á miðla og fjallar um femínisma, vald, ofbeldi og hið kvenlega í listsköpun sinni. Auk myndlistarinnar starfar hún sem búningahönnuður, leikmyndahönnuður og leikstjóri.

Um þessar mundir er Sunneva meðal annars að ljúka sameiginlegu meistaranámi í myndlist við Goldsmith háskólann í London og Listaháskóla Íslands, klára matreiðsluþætti sem hún leikstýrir, ásamt því að undirbúa sýningu fyrir Market, listamessu í Stokkhólmi.

Sunneva segist í rauninni aldrei hafa tekið ákvörðun um að verða listamaður, heldur hafi lífið leitt hana í þá átt.

Hún æfði ballett og píanó frá unga aldri og var snemma byrjuð að taka þátt í öllum listviðburðum sem buðust.

„Listgreinar voru það sem mér gekk vel í á minni skólagöngu, það sem ég fékk viðurkenningu fyrir og þar sem mér leið vel. Í mínu tilfelli þá áttaði ég mig bara á því 35 ára að ég ákvað aldrei hvað ég ætlaði að verða, þetta er bara innri þörf sem þú getur ekki stjórnað.

Ég held í alvörunni að ég væri ekki nothæf í neitt annað, ég hef oft velt því fyrir mér að ég væri gjörsamlega ónothæf í næstum hvaða starf sem er. Mér finnst það mjög leiðinlegt en það er bara þannig.“

Sunneva Ása á von á sínu fyrsta barni í haust.

Dansinn fyrsta ástarsorgin

Meðfram myndlistinni æfði Sunneva dans í Listdansskóla Íslands og segir dansinn og myndlistina alltaf hafa haft jafn mikið vægi fyrir henni, erfitt hafi verið að velja á milli.

Örlögin ýttu henni svo í átt að myndlistinni þegar hún slasaði sig á hné og gat ekki dansað lengur. „Hnéð er alveg ónýtt og ég var miður mín þegar ég áttaði mig á því. Þetta var í raun mín fyrsta ástarsorg, að þurfa að skilja við dansinn.“

Hún segist hafa saknað dansins mikið í upphafi en seinna áttað sig á því hversu mikið hann nýttist henni í öllu sem hún gerir.

„Ég hef getað nýtt dansinn í myndlistinni og þá sérstaklega í gjörningum, líkami minn hefur alltaf verið mjög stór hluti af sköpuninni minni. Að fara inn í líkamann sinn svona ungur og nota hann sem tjáningarform mótar mann svo mikið í því hvernig maður fer inn í aðrar listgreinar. Ég hef líka unnið mikið með dönsurum og hannaði meðal annars búninga fyrir Íslenska dansflokkinn þar sem búningarnir voru hluti af hreyfingunum.“

Á vinnustofunni, við gerð einkasýningarinnar Flagð, sem opnaði hjá Þula Gallerí í Marshallhúsinu, 2023.

Líkaminn ekki merkilegri en epli í körfu

Þrátt fyrir að koma fyrir sem einstaklega sjálfsörugg kona segir Sunneva sjálfsgagnrýni hafa haft áhrif á sig eins og svo marga í skapandi greinum en hún segir bestu leiðina til þess að takast á við hana sé að ögra sjálfri sér og gera sem mest af því sem hún hræðist.

„Ég finn oft fyrir svokölluðu loddaraheilkenni en á móti kemur að ég þrífst á því að ögra sjálfri mér. Ég veit að til þess að þroskast og þróast þá þarf ég að koma mér út úr þægindunum. Mér fannst gjörningar til dæmis mjög erfiðir til að byrja með og þess vegna gerði ég mikið af þeim.“

„Ég eins og margar konur á mínum aldri sem ólust upp með Kate Moss og heróínútlitinu, var með brenglaða líkamsmynd. Ég passaði ekki inn í þessa staðalímynd og mér fannst það mjög erfitt. Ég áttaði mig svo á, að sem myndefni væri líkaminn minn ekkert merkilegri en eitthvert epli í körfu.
Til þess að komast yfir þetta ákvað ég að fá mér vinnu sem nektarmódel í Myndlistarskóla Reykjavíkur í eina önn og það hjálpaði verulega. Ég hætti að taka líkama minn svona alvarlega.“

Gjörningurinn Odd Girl, sem unninn var fyrir sýninguna Odd Girl Out, 2023.

Hef þurft að milda mig

Sunneva segist alltaf hafa verið uppreisnargjörn og átt auðvelt með að tjá sig en að það séu eiginleikar sem séu vandmeðfarnir.

„Það er einhver eiginleiki í mér sem er mjög blátt áfram sem ég hef þurft að temja, það er nauðsynlegt vegna þess að hann getur líka orðið mjög sjálfseyðandi. Mitt vandamál hefur í rauninni verið að milda mig.

Það var oft erfitt að vera með svona sterkar skoðanir þegar ég var yngri og segjast svo ætla að skipta um skoðun. En það er líka mikilvægur þroski að geta viðurkennt að maður hafi haft rangt fyrir sér og það erfitt þegar maður er búinn að vera hávær. Þess vegna skil ég líka stjórnmálamenn sem geta aldrei skipt um skoðun.

Forréttindi listarinnar eru þau að við getum verið mótsagnakennd, við erum breysk og við erum að fjalla um þennan breyskleika og taka ábyrgð á honum.
Mín myndlist hefur alltaf fjallað um sálfræðilegan þroska manneskjunnar, sem er auðvitað alltaf spegill á sjálfa mig. Þetta helst í hendur mannlegur þroski og þroski í myndlistinni.“

Að finna til auðmýktar, segir Sunneva vera það sem hefur haft mest áhrif á sig í lífinu. „Að taka sig niður af stalli og viðurkenna mistök hefur verið minn mesti þroski og það speglast í myndlistinni. Maður hættir að vera predikandi.“

Við gerð sýningarinnar Sugarwounds, sem opnaði í Reykjavík 2018.

Gjörsamlega fáránlegt starf

Frelsi frá alvarleika lífsins og listarinnar segir Sunneva hafa verið mikilvægan lærdóm fyrir sig og að í dag sé hún mun afslappaðri í öllu sem hún geri. „Ég tók þetta svo rosalega alvarlega þegar ég var yngri og það er mikill munur að losna frá því. Listin er auðvitað ekki upp á líf og dauða eins og ég upplifði á tímabili.“

„Það að vera listamaður er í raun þráhyggja og ég held að það sé ástæðan fyrir því að maður helst í þessu starfi af því þetta er gjörsamlega fáránlegt starf. Að vera að þræla sér út í leikhúsinu til þess að eiga fyrir því að halda sýningu á meðan maður á varla fyrir efniskostnaði, auðvitað er þetta bara fáránlegt. Þetta snýst bara um úthald og þrautseigju.“

Kvenleiki, femínismi, ofbeldi og vald eru viðfangsefni sem Sunneva nýtir í listsköpun sína.

Get ekki verIð á spenanum hjá ríkinu

Hluti af starfi listamannsins er að koma sér á framfæri og að mati Sunnevu er það erfitt en nauðsynlegt atriði til þess að ná árangri.

„Mér finnst athygli oft erfið, mér finnst gaman að takast á hugmyndafræðilega um list en mér finnst ofoðslega leiðinlegt að tala um mig og mín persónulegu mál. Mér finnst list bara vera spegill þess sem horfir og mér leiðist athyglin á persónuleg mál listamannsins. Að sama skapi þarf að leika leikinn líka, það er engin vinna, bara skemmtilegt.“

Hún segir listamanninn þurfa að sætta sig við að þetta sé hluti starfsins en bendir á að markaðssetning hafi alltaf verið tabú í myndlistarsenunni.

„Mér finnst það furðulegt að fólki sé refsað fyrir að reyna að framfleyta sér. Ég set stórt spurningarmerki við senuna almennt varðandi þetta, þó ég sé ekkert endilega með svörin sjálf. En þegar ég var ung og maður seldi verk þá lá við að litið væri á mann sem talsmann Satans, þetta átti ekki að fjalla um peninga heldur eitthvað miklu æðra.
Maður þarf að sætta sig við það að maður þarf peninga til að lifa og maður þarf peninga til þess að búa til list og geta starfað. Og ég get ekki réttlætt það með því að vera á spenanum hjá ríkinu, ég er bara ekki til í það. Maður verður að taka einhverja ábyrgð.“

Eignast sitt fyrsta barn í haust

Það er fjölmargt fram undan hjá Sunnevu en Ríkissjónvarpið mun innan skamms byrja að sýna matreiðsluþætti sem hún leikstýrir. Í þeim er allað um samruna íslenskrar matarmenningar og hefða í tengslum við umhverfisvernd.

„Hugmyndin kviknaði út frá því að Solla Eiríks fékk mig til þess að hanna heimilið hennar. Ég hef alltaf haft gríðarlegan áhuga á mat og í samræðum okkar kviknaði þessi hugmynd sem við útfærðum saman. Við erum að taka viðtöl við konur um allt land, fá að kíkja í gamlar uppskriftarbækur og sjá hvernig við getum brúað bilið á milli hefðanna og nútímans.

Svo er ég að klára meistaranámið mitt og halda áfram með þær pælingar sem ég hef verið að vinna með í náminu. Það sem er svo gott við að fara í skóla þegar maður er orðinn fullorðinn er að fá þennan vettvang til þess að gera tilraunir, fá gagnrýni og ræða hana. Þá næ ég að sprengja mig meira út þrátt fyrir að vera að vinna með svipuð málefni,“ segir Sunneva og bætir því við að hún sé svo auðvitað að fara eignast barn í haust.

Fyrir utan barneignir, myndlistina, þáttagerð og margt annað, segir Sunneva að hennar helsta verkefni sé að halda áfram að slípa sig sem listamann, að einfalda hugmyndafræðina og skilaboðin.

„Það er þessi vegferð, samansafnið og þroskinn í mörgum verkum sem búa til einhverja heildarmynd. Ævistarfið er kannski niðurstaðan, ekki að ég geri eitt meistaraverk og verði uppgötvuð. Ég hef dálítið þurft að gefa þá hugmynd upp á bátinn. Ég skildi allt í einu af hverju það var alltaf verið að hamra á því að vera iðinn og gera mikið, halda áfram. Af því að það er heildin sem skiptir máli.“