Þróunarbanki Evrópuráðsins hefur samþykkt að veita Reykjavíkurborg lán að andvirði fimmtán milljarða króna. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu bankans dagsettri 26. mars síðastliðinn.

Í tilkynningu á vef Þróunarbankans kemur fram að með lánveitingunni verði skólaumhverfið endurskilgreint í takt við nútíma kennsluaðferðir ásamt því að gæði skólabygginga verði bætt.

Viðhald og framsæknir stuðlar

Athygli vekur að ekki er mikill samhljómur á milli tilkynningarinnar á vefsíðu Þróunarbankans annars vegar og umræðna um málið á vettvangi borgarráðs hins vegar. Þróunarbankinn segir að skóla- og frístundasvið Reykjavíkur hafi þróað „framsækinn“ stuðul til að meta félagslegar breytur í skólaumhverfi hvers grunnskóla eða svokallaðan LOI stuðul (e. learning opportunity index). Stuðullinn á að meta hversu miklu fjármagni eigi að verja til hvers skóla til að „aðlaga skólastarf betur að félagslegum breytileika milli skóla þannig að skólar í viðkvæmu samfélagi geti betur mætt þörfum nemendahópsins fyrir aukin tækifæri til náms“ eins það er orðað í kynningu í borgarráði í
september 2021.

Þróunarbankinn segir að lánveitingin verði eyrnamerkt þeim skólum í höfuðborginni sem hafa hæstan LOI-stuðul. Þá segir í tilkynningunni að ríflega 22 þúsund grunnskólabörn muni njóta góðs af fjárfestingunni þar á meðal börn flóttafólks, Úkraínumanna og börn Grindvíkinga. Um 15 þúsund börn sækja í dag grunnskóla Reykjavíkurborgar.

Þegar borgarráð veitti borgarstjóra heimild til þess að sækja um lán í Þróunarbanka Evrópuráðsins í febrúar kom fram að ástæða lánveitinganna væri viðhaldsátak á húsnæði grunnskóla, leikskóla og frístundarhúsnæði. Er um að ræða áætlun sem fyrst var lögð fram í borgarráð í nóvember 2021 og mun kosta útsvarsgreiðendur um 30 milljarða króna.

Þetta er hluti af frétt sem birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag, 17. apríl. Áskrifendur geta lesið fréttina í fullri lengd hér.