Ef við horfum á orkumálin þá væri tímabært að einfalda reglugerðir í kringum framkvæmdir og stytta undirbúningstíma áður en kemur að útboðum. Það fer mikill tími bæði í ákvörðunartökuna sjálfa og allar leyfisveitingar,“ segir Karl Andreassen, forstjóri Ístaks.

Hann segir kæruferlið í kringum orkuframkvæmdir ekki nægilega skilvirkt. Það gangi ekki að verkefni stöðvist þegar komið sé á lokametrana á undirbúningstíma og nefnir hann Hvammsvirkjun sem dæmi.

„Það ætti að reyna að stytta ferlið þannig að þeir aðilar sem vinna í orkumálum leiðist ekki svona langt með verkefnið og eru síðan stöðvaðir á lokafasa. Það þarf að fá umsagnaraðila til að koma með sínar athugasemdir fyrr, en ekki á lokametrunum eins og við sáum með Hvammsvirkjun. Það þarf meiri skilvirkni þegar kemur að þessu. Ég er hræddur um að það sé ekki búið að leysa alla hnúta til að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur, þ.e. að hægt sé að tefja nauðsynlega uppbyggingu á orkuframkvæmdum á lokametrunum út af tæknilegum atriðum eins og þegar framkvæmdaleyfi Orkustofnunar vegna Hvammsvirkjunar var felt úr gildi.“

Hann segir stjórnvöld vera með óskýra stefnu í orkumálum, t.d. þegar komi að útflutningi hennar.

„Það er ekki vilji fyrir sæstreng, að selja orku úr landi með þeim hætti. En á sama tíma er gefið grænt ljós á að orkufyrirtæki selji erlendum aðilum þau megavött sem eru framleitt hér heima, til að framleiða útflytjanlega orku. Megavött sem gætu farið í orkuskiptin eða aðra framleiðslu innanlands. Maður spyr sig hvort það sé eitthvað öðruvísi en sæstrengur. Það er mikil umræða og margir aðilar áhugasamir að koma hingað og byggja eitthvað upp. En ég efast um að stjórnvöld séu með skýr svör hvað þessir aðilar geta gert hér. Hvort það sé einhver stefna í þessum málum,“ bætir Karl við.

Skortur á endurnýjun meðal iðnaðarmanna

Mikill skortur hefur verið á iðn- og tæknimenntuðu fólki á Íslandi um nokkurt skeið. Karl segir of litla endurnýjun á iðnmenntuðum hér á landi. Hlutfall erlends vinnuafls hækki með auknum verkefnum.

„Það eru sífellt færri íslenskir iðnsveinar sem eru að koma til okkar að starfa og ekki margir að útskrifast á hverju ári. Nú síðast útskrifuðust um 540 úr byggingartengdum fögum og er talað um met í þeim efnum. Þetta er ekki stór hópur miðað við hversu margir vinna við þessar greinar hér á landi. Margir iðnmenntaðir enda á því að sækja sér aðra menntun eða hætta að starfa í þessum greinum. Þar að auki eru margir að hætta vegna aldurs, og ljóst að við þurfum meiri endurnýjun og hreyfingu á þessum hópi. Við erum mikið með erlent vinnuafl í þessum greinum vegna skorts á iðnmenntuðum hér heima og með hverju ári verður hlutfallið skakkara þar sem hlutfall erlends vinnuafls vex með auknum verkefnum,“ segir Karl sem finnst að tala megi betur um iðnnám hér á landi.

„Það þarf að lyfta umræðunni á hærra plan varðandi iðnám. Það er oft þannig að þetta nám er talað niður og öðrum námsgreinum hampað. En iðnám er mjög gott nám og miklir möguleikar á því að komast í góða og mikla vinnu og að vinna við eitthvað skemmtilegt og gefandi.“

Skýrari leið vantar til löggildingar

Hann segir vanta skýra leið fyrir iðnaðarmenn, sem koma hingað til lands að starfa og eru með erlenda menntun, að fá löggildingu eða í það minnsta menntun sína metna inn eða möguleika á að aðlaga hana að íslenskum kröfum.

„Það þarf að horfa til þeirra iðnaðarmanna sem eru að flytja til landsins að vinna hér. Iðnaðarmenn, sem eru t.d. búnir að ljúka rafvirkja- eða píparamenntun, koma hingað til lands og þurfa að fara í gegnum ýmiss konar endurmat og námskeið til að fá löggildingu. Að mínu mati vantar skýrari leið fyrir þá til að fá löggildingu sem þarf hér heima til að starfa á markaðnum. Það ætti að búa til námslínu sem gæti gripið þennan hóp betur.“

Fjármagn fylgi aukinni aðsókn í iðnnám

Á undanförnum árum hefur verið bent á þann fjölda umsækjenda sem kemst ekki í iðnnám hér á landi. Á sama tíma vanti starfsfólk í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð til að sinna eftirspurn. Áform eru um uppbyggingu á betri námsaðstöðu fyrir iðn- og tæknimenntun hér á landi. Karl segir mikilvægt að stjórnvöld setji nægt fjármagn í námið svo hægt sé að taka á móti öllum þeim sem sækja um iðnnám.

„Nú er verið að skipuleggja uppbyggingu á nýjum tækniskóla sem er mjög stórt og gott skref. En það tekur tíma að koma þessu af stað og það þarf að tryggja rekstur skólans með nægu fjármagni til að skólarnir geti tekið á móti öllum þessum umsækjendum. Það þarf að veita góða kennslu í þessum greinum sem þarf að kenna hér heima.”