Stefnt er að því að loka 10/11 búðum við bensínstöðvar Skeljungs og Orkunnar á árinu en í staðinn verða opnaðar matvörubúðir undir sérstöku merki sem Baskó, eigandi 10/11, mun reka.

Hendrik Egholm, forstjóri Skeljungs, segir að fyrirtækin tvö, Skeljungur og Baskó, hyggist með þessu styrkja samstarf sitt og leggja aukna áherslu á matvöru en í staðinn verður dregið úr framboði bílatengdra vara í búðunum við bensínstöðvar Skeljungs. Í því liggi áherslubreytingin.

Þá verður þjónusta Heimkaupa einnig ofin inn í nýju verslanirnar en stefnan er að sögn Hendriks að setja upp skápa þar sem viðskiptavinir Heimkaupa geta sótt vörur. Hann vonast jafnframt til þess að nýju búðirnar verði í samstarfi við Eldum rétt þó það sé ekki í hendi eins og staðan er núna en Baskó er helmingseigandi í Eldum rétt.

Hendrik segir ennfremur að markmiðið sé að hægt sé að samþætta sem flestar tegundir vöru og þjónustu á útsölustöðum fyrirtækjanna. Þannig verði hægt að kaupa bensín, matvöru, sækja vörur frá Heimkaupum og ef til vill líka Eldum rétt ef samningar nást um það.