Heildarfjárfesting Indigo Partners í Wow air mun nema 75 milljónum dollara eða því sem nemur um 9,4 milljörðum króna verði allir fyrirvarar uppfylltir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Wow air. Þar segir að ef áreiðanleikakönnun gangi eftir muni Indigo veita Wow air umbreytanlegt lán auk þess sem það muni eignast hlut í íslenska flugfélaginu.

Þessi tilhögun fjárfestingarinnar er í samræmi við aðrar fjárfestingar Indigo Partners í Evrópu líkt og dæmi Wizz air sýnir líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um í síðustu viku.

Þá hefur Wow einnig lagt það til við skuldabréfaeigendur sem tóku þátt í nýafstöðnu skuldabréfaútboði að lengt verði í skuldabréfinu um 2 ár úr þremur í fimm ár með möguleika á lengingu um ár til viðbótar, gegn því að Wow air greiði milljón evru gjald. Þá er einnig lagt til að fallið verði frá skyldu um að hafa skuldabréfið skráð í kauphöllina í Stokkhólmi. Wow hefur hafið skriflegt ferli við eigendur bréfanna og mun því ljúka 20. janúar næstkomandi.

Heimilt verður að greiða hluthöfum Wow air, sem verða Skúli Mogensen og Indigo Partners, gangi fjárfestingin eftir allt að 1,5 milljónir dollara í „stjórnendagreiðslur" á ári, sem ekki er heimilt samkvæmt núgildandi skilmálum skuldabréfanna.

Lagt er til að fallið verði frá skyldu um að hafa skuldabréfið skráð í kauphöllina í Stokkhólmi og einnig er óskað eftir því að Wow hætti útgáfu ársfjórðungs uppgjöra heldur birti einungis hálfs árs uppgjör.

Einnig verður heimilt að greiða hluthöfum Wow air, sem í dag er Skúli Mogensen, í gegnum fjárfestingafélagið Títan, 1,5 milljónir dollara í arð á ári, auk þess að Wow verði heimilt verði að greiða hluthöfum til baka af lánum, sem ekki er heimilt samkvæmt núverandi skilmálum skuldabréfanna. Þá er lagt til að heimilt verði að greiða skuldabréfið upp frá og með árslokum 2019.