*

föstudagur, 20. október 2017
Innlent 17. maí 2012 12:08

Átakafundur í Garði. „Á ég að hringja á lögregluna?“

Nýr forseti bæjarstjórnar vísaði bæjarstjóra til sætis og lokaði fundinum fyrir bæjarbúum.

Ritstjórn

Allt var á suðupunkti í bæjarstjórn Sveitarfélagsins Garðs í gærkvöld. Þá var haldinn aukafundur í bæjarstjórninni þar sem nýr meirihluti hefur náð völdum í Garði eftir að Kolfinna S. Magnúsdóttir gekk úr röðum D-listans yfir til N-listans, sem nú myndar meirihluta með L-lista. Sagt er frá þessu á vef Víkurfrétta.

Á bæjarstjórnarfundinum í gær dró til tíðinda þegar nýkjörinn forseti bæjarstjórnar, Jónína Holm, tók orðið af Ásmundi Friðrikssyni bæjarstjóra þegar umræður voru um fundargerð skólanefndar. Jónína sendi bæjarstjóra til sætis og lokaði jafnframt bæjarstjórnarfundi en fundarsalur bæjarstjórnar var þétt setinn og fjölmargir stóðu einnig á göngum bæjarskrifstofunnar. Áheyrendur létu í sér heyra yfir ákvörðun Jónínu að loka fundinum. Þegar áheyrendum var vísað úr salnum sagði Jónína „Á ég að hringja á lögregluna?“.

Ekki voru allir á því að yfirgefa fundarsal bæjarstórnar og var því brugðið á það ráð að draga fellivegg fyrir fundarsalinn og loka þannig áheyrendur út af fundinum.