Benedikt Gíslason, sem verið hefur ráðgjafi íslenskra stjórnvalda við vinnu að áætlun um losun fjármagnshafta síðustu, ár verður eignarhaldsfélagi Kaupþings til aðstoðar í tengslum við sölu á allt að 87% hlut félagsins í Arion banka. Greint er frá þessu í DV.

Samkvæmt heimildum blaðsins mun Benedikt Gíslason, fyrrverandi aðstoðarmaður og ráðgjafi fjármála- og efnahagsráðherra, starfa sem ráðgjafi Kaupþings við söluferlið og bætist hann þar með í hóp Morgans Stanley sem hefur um talsvert skeið unnið að undirbúningi að sölu á eignarhlut Kaupþings í bankanum.

Miðað við núverandi bókfært eigið fé Arion banka er 87% hlutur Kaupþings metinn á um 173 milljarða króna.