Framkvæmdir við nýja stórverslun Costco sem opnar í Kauptúni í Garðabæ í nóvember munu hefjast á næstu vikum.

Í byrjun maí samþykkti bæjarráð Garðabæjar og Skipulagsstofnun breytt deiliskipulag fyrir svæðið, en húsnæðið í Kauptúni verður stækkað svo það verði alls 14 þúsund fermetrar. Mun verslunin standa við hlið Bónus og vörulagers IKEA.

Jafnframt var veitt samþykki fyrir 12 eldsneytisdælum á lóðinni fyrir viðskiptavini verslunarinnar, en upphaflega fór fyrirtækið fram á að þær yrðu 16. Aðrir en viðskiptavinir munu ekki geta keypt eldsneyti þar því viðskiptamódel fyrirtækisins byggir á því að viðskiptavinir þurfi að greiða ársgjald fyrir félagsmenn í klúbbi fyrirtækisins til að mega versla þar.

Samkvæmt frétt mbl.is um málið sagði Steve Pappas framkvæmdastjóri Costco í Bretlandi að talsvert úrval verði af íslenskum vörum í verslunnini en jafnframt að ekki væri búið að ákveða upphæð félagsgjaldsins. Slík aðild kosti þó 55 dollara í Bandaríkjunum sem eru tæpar 7000 krónur en svo er hægt að fá dýrari aðild sem hafi ákveðin hlunnindi í för með sér.