*

þriðjudagur, 18. desember 2018
Innlent 12. desember 2017 15:33

Dygði fyrir um þriðjungi skulda Íslands

Andvirði Bitcoin eigenda Silkivegarins sem m.a. voru gerð upptæk hér á landi næmi í dag 262 milljörðum íslenskra króna.

Höskuldur Marselíusarson
Fjölmörg gagnaver hafa risið á síðustu árum á Íslandi, mörg hver á Reykjanesi líkt og þetta.
Haraldur Guðjónsson

Þegar bandarísk stjórnvöld lögðu hald á 144.000 Bitcoin frá stofnanda og eigenda Silkivegarins eða Silk Road, sem var markaðssíða á netinu þar sem hægt var að versla allt frá dópi til leigumorða, árið 2013 kom í ljós að stór hluti af rafmyntinni var geymd í gagnaverum hér á landi.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um gætu yfirvöld í Búlgaríu fengið andvirði fimmtungs af öllum ríkisskuldum landsins ef þau seldu það sem gert var upptækt í maí síðastliðnum. Bandarísk stjórnvöld seldu rafmyntina í uppboðum á árunum 2014 til 2015 í kjölfar þess að Ross Ulbricht var fundinn sekur fyrir sölu fíkniefna og peningaþvætti.

Samkvæmt Forbes fékk bandaríska dómsmálaráðuneytið andvirði um 48,2 milljónir Bandaríkjadala, eða sem samsvarar 5 milljörðum íslenskra króna, fyrir rafmyntirnar sem gerðar höfðu verið upp. Það þýðir að þær voru seldar á því sem nemur um 334 dölum hver.

Þegar þetta er skrifað er andvirði einnar Bitcoin hins vegar komið upp í 17.046,86 dali, eða sem nemur tæplega 1,8 milljónum króna, sem gerir að andvirði myntarinnar hefur margfaldast um 51 sinnum síðan í virði. 

Heildarandvirði rafmyntarinnar sem gerð var upptæk, meðal annars hér á landi, á sínum tíma í dag næmi tæplega 2,5 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem samsvarar 262 milljörðum íslenskra króna. Samkvæmt nýjustu upplýsingum ríkissjóðs nema heildarskuldir íslenska ríkisins 911,6 milljörðum króna, svo þetta nemur um 29% af skuldum íslenska ríkisins, eða tæplega þriðjungi.